Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Sjálfstæðisflokkurinn, íbúðalánin og gæfusmíðin.

“Hver er sinnar gæfusmiður. Hafi menn skuldsett sig of mikið bera þeir vitanlega ábyrgð á því.“ Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans 22. sept. 2008.

Ég vil útvíkka þetta aðeins: Hver er sinnar gæfu smiður. Menn ráða því sjálfir hvort þeir afgreiða á kassa eða eru bankastjórar.

Ég er nú frekar hlynntur skattalegri hvatningu ef það styður beint við uppbyggingu hagkerfisins, þ.e. fjárfestingu og atvinnusköpun, t.d. nýsköpun, rannsóknir og þróun.  Ef ég man rétt var Sjálfstæðisflokkurinn allan tíunda áratuga síðustu aldar alveg að fara að koma á skattafslætti vegna rannsókna og þróunar (e: R&D). Eftir að Ísland varð alþjóðleg fjármálamiðstöð, eins og heimsfrægt er orðið, hættu menn alveg að ræða svona skattafslætti.

Nú er Sjálfstæðisflokkurinn aftur kominn af stað með hugmyndir um skattalega hvata, en ekki til atvinnuuppbyggingar í þetta sinn.  Flokkurinn er nú á þeirri skoðun að almenn leiðrétting verðtryggðra (aðallega húsnæðis-) lána sé ekki góð hugmynd.  Í staðinn vill flokkurinn hvetja fólk til að borga inn á húsnæðislánin sín með eigin peningum.  Ríkið gefi svo þeim sem duglegastir eru að borga afslátt af sköttum.

Skoðum þetta aðeins nánar:

Í fyrsta lagi vill flokkurinn að menn geti fengið allt að 40 þúsund króna skattafslátt á mánuði (480 þús á ári) með því einu að greiða íbúðalánin sín.  Séu menn með greiðslubyrði upp á 100 þús á mánuði greiða þeir það, en ríkið bætir um betur og borgar 40 þúsund inn á höfuðstól lánsins.

  1. Þeir sem skulda lítið eða ekkert, labba sig rakleiðis í næsta banka og slá lán uppá 7 milljónir til fimm ára (4% fastir vextir)).  Greiðslubyrði er ca. 100 þúsund á mánuði.  Þeir kaupa sig inn í ríkisbréfasjóð með hluta af láninu. Svo borga menn úr sjóðseigninni 100 þúsund á mánuði en ríkið bætir við 40 þús. Sjóðseignin  plús ríkisframlagið gera talsvert meira en að standa undir láninu.  Semsagt þessir aðilar fá afsláttinn næstum frítt, eða með öðrum orðum ríkið hefur gefið þeim  nærri hálfa milljón króna á ári sem það hefði annars tekið í skatta, án þess að viðkomandi hafi lagt neitt undir. Þessi hópur fær svo til allan afsláttinn 40 þús króna á mánuði beint inn í ráðstöfunartekjur, með því bara að hirða hann að mestu úr lánsupphæðinni strax.
  2. Það er vissulega satt að réttur og sléttur Jón fær sömu ívilnun hafi hann greiðslubyrði upp á 100 þús á mánuði.  Hann fær hinsvegar ekkert fyrir forsendubrestinn, ekkert fyrir tugaprósenta hækkun lánanna umfram ráðstöfunartekjur þrátt fyrir að greitt hafi verið af þeim um árabil. Fólkið í þessum hópi nýtur ekki aukinna ráðstöfunatekna fyrr en skattafslátturinn er búinn að klípa einhvern vænan bita úr höfuðstólnum, en það tekur einhver ár. Þeir sem hafa afhennt kröfuhöfum allar eigur sínar, íbúðin seld nauðungarsölu og / eða orðið gjaldþrota, fá ekkert, alls ekkert, útúr leið Sjálfstæðisflokksins. Sem betur fer getur forsendubrestsfólkið engum um kennt nema sjálfu sér.  Það græðgis og gamblaralið fær bara það sem það á skilið, er það ekki?
Í öðru lagi vill Sjálfstæðisflokkurinn að hver sem er geti borgað allan viðbótarlífeyrissparnað (ekki uppsafnaðann ef ég skil rétt) inn á höfuðstól íbúðalána sinna skattfrjálst.  Þetta er upphæð sem nemur 4% af tekjum viðkomandi.


Þetta er súperdíll fyrir þá sem hafa háar tekjur, því skattafslátturinn er um og yfir 40% (segjum 40% til einföldunar). Taflan hér fyrir neðan sýnir hve mikið menn geta greitt inn á höfuðstól íbúðalána sinna og hve mikið ríkið gefur eftir.

Tekjur á mánuði

Greitt inn á höfustól á mánuði

Skattafsláttur á mánuði

Skattafsláttur á ári

250 þús

10.000

4.000

48.000

500 þús

20.000

8.000

96.000

700 þús

28.000

11.200

134.400

1000 þús

40.000

16.000

192.000

3 milljónir

120.000

48.000

576.000

Þetta nýtist öllum sem geta sett tvö prósent tekna sinna í viðbótarlífeyri, líka þeim sem eru í basli með greiðslubyrði sína fyrir.  Einn bankastjórinn er einhversstaðar nærri síðustu tölunni (3 millj), en Þór Saari sagði eftir fund í okt. 2010 :

"Bankastjórarnir voru bara eins og ég veit ekki hvað í gærkvöldi. Ég held að það hafi verið forstjóri Arion banka [Höskuldur H. Ólafsson] sem fyrstur tók til máls og sagði almenna niðurfærslu skulda vera slæma lausn, það rökstuddi hann með því að segja að hann persónulega þyrfti ekkert á slíkri lausn að halda."

Ætli bankastjórinn myndi slá hendinni móti tilboði Sjálfstæðiflokksins? Varla, hann myndi labba í næsta banka og skrifa sjálfum sér til handa feitan skattafslátt með því einu að slá íbúðalán, afslátt sem væri meira en tífalt hærri í krónum en láglaunamanneskja á kost á. Kannski meinti bankastjórinn að hann þyrfti ekki niðurfærslu, því skattafsláttur hentaði honum betur.

Þetta er semsagt það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill frekar en að forsendubrestur sé leiðréttur.  Heimili með tekjur uppá milljón á mánuði og litlar skuldir í húsnæði getur án teljandi fyrirhafnar og án áhættu fengið 672 þúsund króna skattafslátt á ári bara með því að labba í bankann og slá lán sem greiðir sig nokkurn veginn sjálft.  Mér sýnist að besta leið bankastjórans sé að slá 7 milljón króna lán eins og áður var getið en lánið hjá bankastjóranum væri uppgreitt innan 3 ára, með skattalegum ábata uppá u.þ.b. milljón á ári. Hvernig nálgast bankastjórinn ábatann?  Jú hann hirðir hann bara út úr lánsupphæðinni að mestu leyti á lántökudegi og getur farið í fimm stjörnu heimsreisu, eða keypt nýjan bíl fyrir krakkana ef það á við.

Að endingu: Afgreiðslumaður á kassa (250 þús í tekjur) með íbúðarlán með 100 þús króna greiðslubyrði og viðbótarlífeyrissparnað fær 528 (480 + 48) þús króna skattafslátt á ári, skuldlaust heimili með milljón í tekjur fær 672 (480 + 192) þús, en bankastjórinn fær yfir milljón í skattafslátt á ári, ef hann kærir sig um.

Nú er ég ekki að segja að mér finnist eðlilegt að forsendubrestur sé bættur með sömu krónutölu á þá sem skulda mikið og þá sem skulda lítið eða þá sem hafa lágar tekjur og þá sem hafa háar tekjur.  Forsendubrest þarf að leiðrétta í hlutfalli við skaðann sem menn hafa orðið fyrir. Það er samt umhugsunarvert að stjórnmálaflokkur tali fyrir leið þar sem þeir sem orðið hafa fyrir forsendubresti þurfa margra ára skattafslátt til að naga niður forsendubrestinn, meðan aðilar sem ekki hafa orðið fyrir forsendubresti labba burt með milljóna ábata í fyrirframgreiddum skattafslætti á einum degi.

PS. Ég geri mér vel grein fyrir að hlutfallslegur ábati bankastjórans er minni en afgreiðslumannsins.  Afgreiðslumaðurinn fær hjálp með lánið sitt, en bankastjórinn fær þykk seðlabúnt inn um lúguna frá ríkinu.  Ég veit líka að bankastjórinn borgar mikla skatta og þeir hafa hækkað mikið í tíð núverandi stjórnar. En að óbreyttu skattkerfi að öðru leyti, held ég að ofangreint lýsi áhrifum af tillögum Sjálfstæðisflokksins.


Höfundur

Björn Ragnar Björnsson
Björn Ragnar Björnsson

Duglegur í byggingarvinnu og glöggur á tölur.  Var framboði til stjórnlagaþings með númer 9838. Hlaut smásjárfylgi en er sáttur. Engum háður. Hafði aldrei verið í stjórnmálaflokki áður en ég gekk til liðs við Pírata. Markmið með framboði var að vinna einungis að hagsmunum þjóðarinnar í nútíð og framtíð. Er einn örfárra einstaklinga sem gert hefur efnislegar athugasemdir til þingnefndar við breytingar á stjórnarskrá í fyrndinni.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband