Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012
2.12.2012 | 07:16
BRB gegn Íslandi? Mannréttindasáttmáli Evrópu.
Um langa hríð hef ég velt fyrir mér aðgerðum og aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda í aðdraganda bankahrunsins, í hruninu sjálfu og allan þann tíma sem frá því er liðinn.
Eitt af því sem ég tel næsta öruggt er að einmitt aðgerðir ýmsar og aðgerðaleysi stjórnvalda feli í sér brot á mannréttindasáttmála Evrópu.
Brotin sem ég þykist vita af varða aðallega tvær greinar (báðar greinarnar eru lög á Íslandi):
14. grein: Réttindi þau og frelsi, sem lýst er í samningi þessum, skulu tryggð án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, litarháttar, tungu, trúarbragða, stjórnmála- eða annarra skoðana, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu, tengsla við þjóðernisminnihluta, eigna, uppruna eða annarrar stöðu.
og
1. gr. samningsviðauka nr. 1: Friðhelgi eignarréttar
Öllum mönnum og lögaðilum ber réttur til að njóta eigna sinna í friði. Skal engan svipta eign sinni, nema hagur almennings bjóði og gætt sé ákvæða í lögum og almennra meginreglna þjóðaréttar.
Eigi skulu þó ákvæði undanfarandi málsgreinar á nokkurn hátt rýra réttindi ríkis til þess að fullnægja þeim lögum sem það telur nauðsynleg til þess að geta haft hönd í bagga um notkun eigna í samræmi við hag almennings eða til þess að tryggja greiðslu skatta eða annarra opinberra gjalda eða viðurlaga.
Við skulum hafa í huga að það stjórnvöld gætu verið brotleg með aðgerðaleysi einu saman, en það er nú aldeilis ekki eins og stjórnvöld hafi verið aðgerðalaus. Stjórnvöld hafa einmitt allan ofangreindan tíma staðið fyrir aðgerðum sem mismuna fólki gróflega, sérstaklega eftir efnahag.
Til að mynda tel ég einboðið að eignaupptaka á grundvelli verðtryggðra samninga í aðdraganda og sérstaklega í kjölfar bankahrunsins brjóti gegn þessum greinum teknum saman. Það þarf ekki að bíða frekari aðgerða frá yfirvöldum, til að fullyrða að borgurum með verðtryggð lán er að ósekju ætlað að bera mun stærri hluta kostnaðar af bankahruninu en öðrum. Nú er ekki svo að nákvæmlega jafnt, sé hægt að deila út réttlæti í þessum efnum, en réttlæti stjórnvalda að þessu leiti er vel utan við "meðalhóf".
Á næstunni mun ég gera frekari grein fyrir hugleiðingum mínum um þessi efni.
PS. Meðalhóf er sérstaklega "vont" orð í þessu samhengi öllu, því það lýsir mun verr réttaráhrifum en alþjóðlega orðið "proportionate" (hlutfallslegt) sem á betur við í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)