Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014

Samgöngur ekki bara aðalatriði, heldur Aðalatriðið.

Því miður skipta kosningaúrslitin í Reykjavík miklu máli fyrir mun fleiri en Reykvíkinga eina.  Skipulagsmálin í Reykjavík eru í einum allsherjar graut í umræðunni.  Í raun er um fjögur stór aðskilin mál að ræða:

  • Þétting byggðar.
  • Flugvöllurinn fari.
  • Staðsetning nýs Landsspítala.
  • Minnkun afkastagetu samgöngumannvirkja og fækkun bílastæða.
Hvert þessara mála virðist rekið áfram, af sitjandi borgarstjórn, sjálfstætt og óháð hinum þó þau hafi vissulega stóran snertiflöt að ræða og sá flötur er í daglegu tali nefndur samgöngur. T.d er þétting byggðar á döfinni burtséð frá því hvort flugvöllurinn fer eða er og óháð því hvort nýr spítali rís við hringbraut. Þá er að því er virðist stefnt að því að, ekki bara láta ógert að bæta umferðarmannvirki borgarinnar, heldur beinlínis eyðileggja þau.

Hverfisbundin þétting byggar er aukaatriði nema fyrir íbúa hverfisins. Ef t.d. allir íbúar í hverfi 107 eru sáttir við að hvísl um nótt leiði til kvartana til lögreglu um ónæði og þeir þurfi að leggja bílum sínum í 105, er það að mestu aukaatriði nema fyrir íbúa þessara hverfa.  Staðsetning moskunnar er aukaatriði.  Staðsetning nýja spítalans er aukaatriði ef aðgengið er gott, samgöngur til hans greiðar og jafnvægi í samgöngukerfi borgarinnar riðlast ekki um of.

En samgöngukerfi borgarinnar er ekki aukaatriði.  Það er ekki bara aðalatriði, það er beinlínis Aðalatriðið.  Samgöngur er allstaðar í heiminum aðalatriði. Góðar samgöngur eru hins vegar hjá sitjandi borgarstjórn göngustígar, hjólastígar og strætó, en alls ekki vegir og bílastæði.

Takist sitjandi meirihluta að koma fram stefnumálum sínum í umferðarmálum verður það stórfelld skerðing lífsgæða íbúa úthverfanna og nærliggjandi bæja.

Mér er fyrirmunað að skilja hvernig nokkur einasti úthverfabúi getur hugsað sér kjósa stjórnmálaöfl sem  vinna gegn hagsmunum þeirra, fjárhag og hamingju.

Bænahús og betri lóðir.

27. ágúst 1992 var skóflustunga tekin að Digraneskirkju við Gagnheiði 3 á Víghól í Kópavogi.  Kirkjan var hönnuð og búið að semja við verktaka.  Gagnheiði er í dag ekki til sem gata í Kópavogi að því er ég best veit og Digraneskirkja er svo sannarlega ekki á Víghól.  Í raun var þarna glæsilegt og ákjósanlegt kirkjustæði.  Að því er virðist tókst íbúum nærliggjandi húsa að tromma upp nægilega mikla andstöðu við staðsetningu kirkjunnar að á endanum var hætt við að reisa hana á Víghól og vorið 1993 var aftur tekin skóflustunga að Digraneskirkju en nú við Stútulaut.

100% öruggt er að söfnuði múslima á Íslandi ber að afhenda lóð eins og aðrir söfnuðir hafa notið.  Þá er líka 100% öruggt að sú lóð verður án gjalda fyrir söfnuðinn.  Það er af og frá að það standist stjórnskrá eða meðalhóf stjórnsýslulaga að breyta nú í skyndingu þeirri reglu að lóðir undir bænahús verði án nokkurs fyrirvara gjaldskyldar, hvað þá eftir að lóð hefur verið úthlutað eða loforð gefið.

Prívat og persónulega má moskan mín vegna vera í Sogamýri, en ég kysi frekar að henni væri fundinn enn glæsilegri staður, helst á Skólavörðuholtinu eða í póstnúmeri 107.  Dæmið sem ég nefndi í upphafi staðfestir að endanlegt er ekki endanlegt fyrr en það er endanlegt.


Höfundur

Björn Ragnar Björnsson
Björn Ragnar Björnsson

Duglegur í byggingarvinnu og glöggur á tölur.  Var framboði til stjórnlagaþings með númer 9838. Hlaut smásjárfylgi en er sáttur. Engum háður. Hafði aldrei verið í stjórnmálaflokki áður en ég gekk til liðs við Pírata. Markmið með framboði var að vinna einungis að hagsmunum þjóðarinnar í nútíð og framtíð. Er einn örfárra einstaklinga sem gert hefur efnislegar athugasemdir til þingnefndar við breytingar á stjórnarskrá í fyrndinni.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband