Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2016
12.8.2016 | 07:50
Íslensk stjórnmál taka tennur, vonandi fullorðinstennur.
Tannheilsa, sjúkratryggingar, réttlæti
Það þótti fréttnæmt í vikunni að Píratar samþykktu að tannheilsa væri ekki ómerkilegri heilsa en önnur heilsa og þar með að tannheilsugæsla væri ekki ómerkilegri en önnur heilsugæsla. Einhverjir spurðu hvað kostar það en þeim sem næmasta skopskynið hafa fannst þetta meðal annars fyndið. Förum aðeins yfir þetta á hundavaði.
Einhverra hluta vegna er eins og sumum finnist að góð eða slæm tannheilsa sé alfarið á ábyrgð einstaklinganna. Menn geti ekki þurft heilsugæslu á því sviði nema þeir hafi á einn veg eða annan komið sér í þá stöðu sjálfir og eigi þar af leiðandi að bera kostnaðinn einir. Þó við gæfum okkur að þetta væri rétt, sem það augljóslega er ekki, má hið sama segja um marga heilbrigðisóáran hvers bót er engu að síður greidd úr samfélagssjóði. Það er engu líkara en það sé erfiður hjalli að komast yfir að átta sig á að afdrif tannheilsu eru ekki ósvipuð afdrifum annarrar heilsu. Sjálfskaparvíti er einfaldlega óboðleg rök gegn því að tannheilsa falli undir almannatryggingar.
Samfélagið hefur ákveðið að heilbrigðisþjónusta skuli vera fyrir alla án tillits til efnahags eða stöðu og skattar, miklir skattar, eru innheimtir með valdi til að standa straum af henni. Hér er um tryggingu að ræða og loforð um að engum sé mismunað. En hvað með manninn sem glímir aldrei við önnur vandamál en tannheilsuna, hver tryggir hann. Hvaða fé hefur hann yfir að ráða til greiða fyrir sína lækningu þegar samfélagið hefur hirt af honum stórfé árin löng til að greiða heilsuvernd allra annarra. Hvað réttlætir þessa útskúfun. Svarið er einfalt, alls ekkert. Annað hvort er heilbrigðiskerfið fyrir alla án tillits til hvar í kroppnum menn glíma við vandamál eða við horfumst í augu við að við styðjum hvorki jafnræði né sanngirni, styðjum ekki réttlæti. Vill einhver standa upp og viðurkenna það? Nei, hélt ekki.
Kostnaðurinn
Það er allt í lagi að tala um kostnað en það er lífsseig trú að tannlækningar séu dýrar, dýrari en aðrar lækningar. Tannlækningar eru sannarlega ekki ódýrar, ekki frekar en aðrar lækningar, en ef þær væru óeðlilega dýrar sæist þess stað í tekjum tannlækna. Víst hafa margir tannlæknar dágóðar tekjur en af tekjublaði Frjálsrar verslunar verður ekki merkt að þeir hafi meiri tekjur en annarskonar læknar. Ég hygg að sjúkratryggingakerfið sjálft valdi þessari skynjun. Munurinn felst væntanlega að stærstum hluta í því að í tilfelli tannlækninga er reglan sú að sjúklingur greiðar allan kostnað sem oftar en ekki innifelur dýr lyf, dýr efni og allan stofukostnað. Í flestum öðrum læknisverkum greiðir sjúklingurinn hluta kostnaðarins en læknirinn sendir ríkinu, þegar sjúklingurinn sér ekki til, reikning fyrir mismuninum og ennfremur er stofukostnaður oft undanskilin (greiddur af ríki eða sveitarfélagi) og lyf eru sjaldnast innifalin. Ég yrði ekki vitund hissa á að tannlæknirinn kæmi vel út ef allur kostnaður væri borinn saman.
Á endanum mun samfélagið í heild ekki greiða meira fyrir tannheilsu þó hún falli undir almannatryggingar. Tal um aukinn kostnað er rugl. Ef sjúkratryggingar eru formlegur greiðandi tannlækninga er það vegna þess að sjúklingarnir eru hættir borga þá þjónustu beint úr eigin vasa. Greiðslur fyrir tannheilbrigðisþjónustu verða bara inntar af hendi á annan hátt en nú og við munum á heildina litið ekki einungis upplifa betri tannheilsu heldur betri heilsu. Ef við ætlum á annað borð að hafa samfélagsrekna heilbrigðisþjónustu þá eru einfaldlega engin heilbrigð rök fyrir því að undanskilja tannlækningar.
Við skulum því öll sem styðjum samfélagstryggingu heilsugæslu sameinast um að vinda sem bráðastan bug á réttlætisyfirsjón okkar og koma tannlækningum fyrir í heilbrigðiskerfinu á sama hátt og öðrum lækningum.
Nýjar tennur
Margir upplifa óþægindi af tanntöku þó við höfum mörg gleymt þeim á fullorðinsárum. Óþægindi sem hlotist hafa af ákvörðunum eða yfirsjónum stjórnvalda finnast mér stundum eins og íslensk stjórnmál séu ekki búin að taka barnatennur, hafi ekki enn slitið þeim, eða það sem er verra, verið með falskar tennur. Tíminn frá bankahruninu er í stjórnmálunum búinn að vera eins og samfelld óþægileg tanntaka. Nú eru nýjar tennur að koma í ljós, vonandi heilbrigðar, vonandi gleymum við óþægindum fortíðar með tíð og tíma, vonandi fullorðinstennur, vonandi Píratar.
Gefum barnatönnunum og gömlu fölsku tönnunum frí, kjósum heilbrigðar tennur, kjósum Pírata. Mín von er að Píratar verði þær fullorðinstennur sem við þurfum á að halda og munum að góð tannhirða verðlaunar sig sjálf.