Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2017

Skattar og ferðaþjónusta - Allir hafa rétt fyrir sér!

Í umræðunni um virðiskaukaskatt á ferðaþjónustu togast á ólík sjónarmið en það er hugsanlegt að þau eigi öll uþb jafn mikinn rétt á sér.

 

a) Ríkisstjórnin segir að allar atvinnugreinar eigi að sitja við sama borð í skattalegu tilliti, það sé jafnræði. Þetta er einfalt, auðskiljanlegt og þar með auðvelt að taka undir.

Pæling: Atvinnugreinar munu í náinni framtíð ekki frekar en endranær sitja við sama skattaborðið. Kvikmyndageirinn sem er í alþjóðlegri samkeppni hefur lengi verið í öðrum skattaveruleika en aðrir, en það er vegna þess að allsstaðar er veittur skattafsláttur af þessari starfsemi. Ef afsláttur væri ekki til staðar gæti vel verið að engin yrði hér erlend kvikmyndagerð, burtséð frá því hvort hér gæti verið hagstætt að taka upp myndir án skattafsláttar. Ferðaþjónustan er nú þegar í ákveðnu ofurskattaumhverfi. Ég giska td á að áfengisneysla sé að jafnaði nokkur í "ferðalögum" og í skattlagningu þeirrar neyslu standa Íslendingum fáir á sporði. Það er möguleiki að íslensk ferðaþjónusta standist ekki með sama hætti og nú án lægra þreps í VSK. Kvótagreifar og bændur eru svo í sérstaklega afmörkuðum mismunandi alheimum, sem er önnur saga geymd til annars dags.

 

b) Ferðaþjónustan segir að launahækkanir og gengisstyrking hafi hirt af þeim allt svigrúm til rekstrarafgangs. Það blasir við öllum að amk fyrir suma gæti þetta raunverulega verið, tja, raunin.

Pæling: Laun hafa hækkað langt umfram mögulega skattahækkun og gengi krónunnar hefur undanfarið eitt og hálft ár styrkst um margfalda mögulega skattahækkun. Það tekur langan tíma fyrir áhrif þessara hækkana að koma fram í minnkuðum straumi ferðamanna til landsins. Þau áhrif dreifast að líkindum á hálft til tvö ár. Á hinn bóginn er á að líta að þó Ísland sé dýrt land eru laun ekki stjarnfræðileg, né heldur byggingar- og rekstrarkostnaður hótela. Gengisstyrkingin hefur ekki bara lækkað framlegð af sölu td gistingar í erlendum gjaldeyri heldur hafa mörg aðföng lækkað í verði af sömu ástæðu. Íslensk hótelgisting er rándýr en herbergjanýting hér er með því hæsta sem þekkist á byggðu bóli. Það er varla sérstakt réttlætismál að hóteleigendur nái að greiða niður fjárfestingu sína á örfáum árum á kostnað annarrar atvinnustarfsemi.

 

c) Hagkerfið er að ofhitna vegna ferðaþjónustunnar og gengisstyrking vegna innflæðis gjaldeyris af hennar völdum er að setja allar útflutningsgreinar í hættu og veldur ofrisi í einkaneyslu.

Pæling: Setjum VSK í sama þrep og önnur atvinnustarfsemi svo mótvægisaðgerðir bitni ekki á öðrum en ferðaþjónustunni. Þetta er besti punkturinn en við vitum ekki hvort nú þegar sé búið að ofkæla ferðamannastrauminn með launahækkunum og gengisstyrkingu. Það veit enginn. Að orðnum miklum launahækkunum og stórfelldri gengisstyrkingu er etv óvarlegt að höggva snemmhendis í sama knérunn með sköttum sem bæta 10 - 20% ofan á verðlag í þessum geira áður en við vitum hvert hitastig greinarinnar verður eftir ár. Ofhitnun er slæm en kannski er ofkæling verri.

 

d) Svo er auðvitað enn einn möguleiki. Að eftirspurn eftir Íslandi sé svo mikil að praktískt skipti það engu máli hve háir skattar á ferðaþjónustu séu og hve mikið verðlag hækki fyrir túrista, heldur séu allar flugvélar fullar af túristum.


Höfundur

Björn Ragnar Björnsson
Björn Ragnar Björnsson

Duglegur í byggingarvinnu og glöggur á tölur.  Var framboði til stjórnlagaþings með númer 9838. Hlaut smásjárfylgi en er sáttur. Engum háður. Hafði aldrei verið í stjórnmálaflokki áður en ég gekk til liðs við Pírata. Markmið með framboði var að vinna einungis að hagsmunum þjóðarinnar í nútíð og framtíð. Er einn örfárra einstaklinga sem gert hefur efnislegar athugasemdir til þingnefndar við breytingar á stjórnarskrá í fyrndinni.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband