Bloggfærslur mánaðarins, mars 2020
26.3.2020 | 07:05
Ertu læknir? Ertu sérfræðingur?
Nei, ég er ekki læknir, en jú, ég er sérfræðingur. Ég er sófasérfræðingur, kóviti og örugglega eitthvað annað sneddí sem fólki dettur í hug. Semsagt ég hef skoðun á hvernig eigi að takast á við sjúkdómsfaraldurinn sem líkt og logi yfir akur fer um heimsbyggðina þessa dagana.
Þegar fólk fettir fingur út í viðbrögð sem stjórnvöld ákveða við krísunni, er viðkvæðið í ætt við fyrirsögn þessa pistils. Rýrð er kastað á málflytjanda út frá menntun eða stöðu og alveg litið framhjá málflutningnum sjálfum. Þeir sem gera þessar ómálefnalegu athugasemdir við efasemdir okkar kóvitana virðist sumir halda að vandamálið sem við stöndum frammi fyrir sé læknisfræðilegt. Ég get fullvissað þetta fólk um að þó að veigamiklir þættir í vandanum séu læknisfræðilegir þá er svörun yfirvalda við honum það bara alls ekki.
Faraldursfræði telst til læknisfræði en það byggir meira á fortíð en nútíð. Faraldursfræði í heimi nútímans, þar sem fólk streymir um alla kúluna í milljónatali á hverjum degi, í heimi heimsfaraldra þar sem ekkert ónæmi er til staðar, er í reynd ekki læknisfræði nema að litlum hluta. Læknisfræðin, líffræðin, lífeðlisfræðin, lífefnafræðin, lyfjafræðin, erfafræðin, eru krítísk atriði í að skilja sjúkdóma, finna lækningu, skilja smitferli, smitnæmi, þróa lyf og svo framvegis.
Þegar þessir þættir liggja, mismikið, fyrir, er spurningin um svörun stjórnvalda kerfislegt vandamál, ekki læknisfræðilegt. Af lífsreynslu síðustu 3 - 4 vikna hef ég nú rökstuddan grun um að slatti af æðstu faraldsfræðingum stjórnvalda á vesturlöndum séu einfaldlega réttir og sléttir læknar og hafi því heldur lítið að leggja til faraldsfræða í heimi 21stu aldarinnar og svörun þeirra tilheyri síðustu öld eða þeirri þarsíðustu.
Hættið þess vegna ekki seinna en strax að gera í Covid-19 málum lítið úr skoðunum og málflutningi fólks, sem óvart er ekki læknar og ekki faraldsfræðingar, nema þið hafið eitthvað til málanna að leggja annað en "ertu læknir?, ertu sérfræðingur?"
Ég rata út.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.3.2020 | 08:16
Hin fullkomna martröð
SARS-Cov-2 veiran sem veldur Covid-19 sjúkdómnum er virkilega slæm martröð fyrir mannkynið. Næstum allt við þessa veiru leggst okkur á versta veg og það sem ekki nær þeirri slæmsku er samt hrikalega vont. Sýkin er svo lúmsk og langdreginn að hún nálgast að vera eins vond martröð og hægt er að hugsa sér. Ég vona heitt og innilega að við finnum silfurkúlu sem stútar þessum óvini en óttast að sú byssukúla sé ekki nægilega skammt undan til að forða okkur frá miklu mannfalli og miklu heilsutjóni. Amk virðist skynsamlegt að reikna ekki með að lækning finnist í hvelli. Þangað til er ágætt að fara yfir helstu atriði sem við vitum um SARS-Cov-2/Covid-19 jafnt og það sem við vitum ekki. Á þessari stundu er óvarlegt að gera ráð fyrir að það sem við vitum ekki muni þegar fram í sækir allt vera okkur hagstætt.
Sjúkdómurinn sem veiran veldur heitir Covid-19 og hann leggst mjög misþungt á fólk.
Hér eru nokkrir hlutir sem við vitum nú um SARS-Cov-2/Covid-19 og sumstaðar hvaða þýðingu ég telji þá vitneskju eða vitneskjuskort hafa varðandi skynsamleg viðbrögð:
1) Bráðsmitandi. Snertismit, nema hvað. Dropasmit, smitandi við innöndun á örsmáum (ósýnilegum) dropum úr andardrætti, hósta eða hnerra smitaðs einstaklings. Þ.e.a.s. ef þú ert nálægt sýktum einstaklingi í tiltölulega skamman tíma eru talsverðar eða miklar líkur á sýkingu. Það er raunverulegur möguleiki að þú smitist við að sækja mjólk eða ost í kjörbúð. Ekki dvelja lengi í búðinni og haltu þig eins langt frá öðru fólki og kostur er. Vertu heima eins mikið og þú getur og slepptu öllum mannamótum.
2) Að bestu manna vitan koma sjúkdómseinkenni í langflestum tilvikum fram á 1. - 13. degi. Að meðaltali koma einkenni fram eftir fimm daga frá smiti og miðgildistími einkeinnabirtingar er á svipuðuðu róli.
3) Staðfest er að sýktir eru smitandi áður en einkenna verður vart. Ekki er hægt að útiloka að smitun sé meiri áður en einkenni birtast en eftir enda eru ákveðnar vísbendingar sem hníga í þá átt. Sé svo er það óvenjulegt fyrir veirusjúkdóma en ekki útilokað. Semsagt, hver sem er getur verið öflugur smitberi þó engin einkenni um sjúkdóm séu til staðar. Ástæðan fyrir að SARS faraldurinn 2003 var kveðinn niður á tiltöluga skömmum tíma og með tiltölulega litlu mannfalli er að í SARS 2003 smituðu sýktir lítið eða ekki fyrr en sjúkdómseinkenni birtust. Ef SARS-Cov-2 væri í sama smitgír værum við að öllum líkindum komin vel áleiðis í að útrýma sjókdómnum sem veiran veldur.
4) Börn sýkjast uþb í sama mæli og fullorðnir, veikjast þó sjaldan að ráði og mörg sýna alls engin einkenni. Ekki er vitað hversu smitandi börn eru né heldur hve lengi. Þessi vitneskjuskortur þýðir að glapræði er að hafa leik og grunnskóla opna áfram.
ÉG ENDURTEK, það er glapræði að loka ekki leik og grunnskólum á stundinni. Margir foreldrar eru nú þegar komnir í "heimavist" og geta þá haft börnin hjá sér. Eitthvað er um fólk sem samfélagið má ekki við að missa úr vinnu en hefur ekki gæslu fyrir börnin sín. Það þarf með öruggum hætti að leysa þennan vanda en allir aðrir ættu að draga börn sín úr leik og grunnskóla úr því stjórnvöld hafa flaskað á þessu. Þessi flöskun stjórnvalda er fyrirfram uþb ófyrirgefanleg nú þegar loks hefur verið komið á samkomubanni og skólalokunum.
5) Einkenni birtast hjá langflestum fyrir 14. dag frá sýkingu. Talið er nær öruggt að hjá sumum komi sjúkdómseinkenni ekki fram fyrr en eftir 14 daga en skiptar skoðanir eru um hve stór hluti sýktra fellur í þennan flokk. Rannsóknateymið sem í síðustu viku staðfesti að börn smitist í sama mæli og fullorðnir mat það svo að 9% smitaðra sýndu ekki einkenni fyrr en á 14. degi eða síðar, aðrir matsaðilar telja þetta hlutfall mun lægra. Sé hærri talan nær réttu lagi er grafalvarlegt ef stjórnvöld hleypa fólki úr sóttkví án smitprófs.
7) Aldraðir og fólk með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma er líklegra til að deyja úr sýkingunni. Þetta er ekki óvænt en er ekki öllum sérstök huggun. Vernda þarf aldraða og viðkvæma sérstaklega en til þess þarf virk úrræði. Tal um að vernda þurfi þessa hópi er hættulega lítið skjól eitt og sér.
6) Þeir sem ná bata eru sjúkir í 2 - 4 vikur. Þetta er mjög vel umfram ganginn í flestum sýkingum sem hrjá mannfólkið í massavís. Þetta þýðir að fólk sem sýkist er úr leik í 3 - 4 vikur. Þeir sem verða illa veikir geta þurft lungnavél vikum saman án þess að lifa sýkinguna af. Þetta setur gríðarlegt álag á heilbrigðiskerfið og er á að giska ástæðan fyrir að við fáum fregnir af því frá Ítalíu að aldraðir og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma fái bara alls enga meðferð við Covid-19. Þeir deyja bara eins týndur maður á jökli eða í eyðimörk.
7) Af greindum smitum er dánartíðni mjög há, sennilega á bilinu 1 - 3%. Varla mikið minna en 1% og ólíklega, en mögulega hærri en 3%.
8) Þó dánartala hjá ungu fólki og börnum sé lág miðað við aðra hópa er hún margfalt hærri en í inflúensu.
9) Hjarðónæmi, þeas þegar stór hluti fólks er orðið ónæmt fyrir sóttkveikju vegna þess að ónæmiskerfi þeirra kann, vegna bólusetningar eða sýkingar, að ráða niðurlögum sóttkveikjunnar slítur það sundur smitkeðjur. Alls óvíst er að hvort varanlegt hjarðónæmi geti myndast gegn SARS-Cov-2. Venjulegt kvef er af völdum nokkurra tegunda kórónaveira og við því eru enn engin bóluefni. Inflúensa stökkbreytist reglulega og menn þurfa að giska á hvernig inflúensuveiran breytist þegar bóluefni er framleitt fyrir komandi árlegan flensutíma. Stundum tekst vel til og fáir veikjast en stundum síður og þá veikjast fleiri. Ákveðin ónæmiskerfismótstaða sem slakt bóluefnisval veitir er þó talin vera gagnleg þó flensubóluefnið hitti ekki alveg í mark einhver ár. Við vitum bara ekki rassgat (afsakið orðbragðið) um hvort Covid-19 sýking sem menn ná sér af dugi til að framkalla tímabundið ónæmi hvað þá frambúðarónæmi. Prívat og persónulega er minn grunur að sýktir sem hafa náð bata séu á þessum tímapunkti með talsvert eða nánast fullkomið ónæmi fyrir sjúkdómnum þvi fréttir um endursýkingar ofl eru fáar þó þær séu til. En semsagt, enginn veit hvort menn verða ónæmir fyrir Covid-19 eða mögulegum stökkbreytingum veirunnar ef þeir hafa sýkst en lifað af.
10) Þeir sem verða illa veikir en lifa af eru margir með sködduð lungu. Engin veit hvort sá skaði gengur til baka. Óvissan um hvort hjarðónæmi myndist og hvort lungnaskaði af Covid-19 getur gengið til baka þýðir m.a. að áætlun breskra stjórnvalda um að keyra sjúkdómin hægt og rólega í gegnum samfélagið með hjarðónæmismyndun sem takmark er fullkomlega óábyrg og ótæk. Eða ætla bresk stjórnvöld virkilega að veðja lungum milljóna Breta á ósannaða hjarðónæmistilgátu? Þar til við vitum meira er eina trygga leiðin í stríðinu við SARS-Cov-2 að stöðva smit eins hratt og mögulegt er og með öllum tiltækum ráðum. Ráðin sem vitað er að virka eru félagsleg fjarlægð/aðgreining, prófanir, rakningar, einangrun.
11) Mögulegt er að sumarhiti dragi úr eða stöðvi útbreiðslu Covid-19, en enginn getur gefið sér það sem vissu. Þvert á móti virðist varkárt að reikna með að smit verði algengt þrátt fyrir aðvífandi sumarkomu í Evrópu. Í Manila á Filipseyjum er hitastig nú á bilinu 25 - 35 gráður en þrátt fyrir það breiðist veiran út þar og samfélagslokun er þegar hafin.
Við þurfum vinna bug á SARS-Cov-2/Covid-19 og það mun mannkynið gera. Spurningin er: hvað mun það kosta, og þá er ég ekki að tala um dollaraupphæð?. Í allra, allra versta falli kostar það stórkostlegar einangrunar og fórnaraðgerðir um áraraðir en í besta falli finnum við ráð sem duga flestum á næstu mánuðum.
7.3.2020 | 03:02
Valkvæm sóttkví fyrir viðkvæma - STRAX!
Nú er orðið ljóst að Covid-19 samfélagssmit verður ekki umflúið á vesturlöndum. Ísland er á nokkrum dögum orðið margfaldur heimsmeistari í greindum smitum miðað við höfðatölu. Ekkert bendir til að hér sé um tölfræðilega tilviljun að ræða, enda má finna af fréttir af hópum sem snéru til síns heima (í Evrópulöndum) smitaðir úr skíðaferðum í Ölpunum fyrir uþb mánuði síðan. Gera má því skóna að "árangur" Íslendinga skýrist einfaldlega af kraftmeiri og markvissari smitprófunum en aðrir hafa gripið til. Með öðrum orðum standa líkur til að smit séu mjög vangreind í Evrópu og í reynd sé veiran komin út um allt. Þá er bara tímaspursmál hvenær þeim fjölgar mjög sem veikjast illa og deyja. Við erum að tala um daga eða par vikur.
Baráttan við sóttkveikjuna hefur hingað til beinst að því að koma í veg fyrir að hún nái fótfestu í samfélaginu en gera verður ráð fyrir að sú barátta sé nú töpuð í Evrópu og Norður-Ameríku. Því þarf að beina öllum kröftum að því að koma í veg fyrir að þeir sem eru fyrirfram í mestri lífshættu fái Covid-19, hefta útbreiðslu sjúkdómsins með öllum tiltækum ráðum og verja takmarkaða getu heilbrigðiskerfisins til að sinna þeim sem veikjast illa.
Þetta þrennt hangir reyndar saman. Ef við grípum ekki til tafarlausra aðgerða til að vernda viðkvæma má búast við að þeir þurrki upp og teppi gjörgæslurými og öndunarvélar fyrr en varir, jafnvel án þess að lifa á sjúkdóminn af á endanum. Þeir sem eru fyrifram í viðkvæmri stöðu eru, að því er best er vitað, aldraðir og einstaklingar með ýmsa alvarlega/langvinna sjúkdóma. Þessir viðkvæmu aðilar vita sjálfir hverjir þeir eru. Að auki eru í heilbrigðiskerfinu upplýsingar um hverjir þetta gætu verið.
Margir þeirra sem eru í sérstakri hættu eru utan vinnumarkaðar vegna t.a.m. aldurs eða örorku. En aðrir eru í fullu starfi og sumir þeirra eru daglega í snertingu við marga, jafnvel mjög marga, einstaklinga úr ólíkum áttum. Þetta fólk er jafn ómissandi og aðrir. Amk svo ómissandi að við megum til með að missa af þeim næstu vikur svo við missum þau ekki endanlega og til frambúðar.
Á öðrum vettvangi hef ég talað fyrir að einstaklingar í sérstakri áhættu verði settir, sjálfum sér og öðrum til verndar, í ótímabundna sóttkví. Það er etv óþarflega róttækt, kannski þarf ekki að skikka neinn, en að lágmarki verður að bjóða þessum einstaklingum sjálfdæmi um hvort þeir haldi sig heima næstu vikur til að forðast smit.
Ummæli sem ég hef séð víða um að umstangið og fjölmiðlafárið kringum Covid-19 sé yfirdrifið eru á misskilningi byggð. Algengt er að td að bera Covid-19 saman við inflúensu sem vissulega leggur marga að velli árlega. Hér er þó ólíku saman að jafna. Allstór hluti landsmanna og flestir í viðkvæmri stöðu eru bólusettir árlega gegn inflúensu og það ver þá flesta auk þess að leggja grunninn að hjarðónæmi. Á hinn bóginn smitast Covid-19 mun auðveldar en inflúensa og enginn er ónæmur, hjarðónæmi er ekkert og dánartíðni Covid-19 talin margfalt hærri en inflúensu.
Semsagt Covid-19 er grafalvarlegur sjúkdómur og viðbrögð yfirvalda og fjölmiðla eru síst yfirdrifin, þvert á móti.
Næsta skref: Einstaklingar í sérstakri hættu ef þeir smitast geti sjálfviljugir kosið sér sóttkví næstu vikur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)