Leita í fréttum mbl.is

Ertu læknir? Ertu sérfræðingur?

Nei, ég er ekki læknir, en jú, ég er sérfræðingur. Ég er sófasérfræðingur, kóviti og örugglega eitthvað annað sneddí sem fólki dettur í hug. Semsagt ég hef skoðun á hvernig eigi að takast á við sjúkdómsfaraldurinn sem líkt og logi yfir akur fer um heimsbyggðina þessa dagana.

Þegar fólk fettir fingur út í viðbrögð sem stjórnvöld ákveða við krísunni, er viðkvæðið í ætt við fyrirsögn þessa pistils. Rýrð er kastað á málflytjanda út frá menntun eða stöðu og alveg litið framhjá málflutningnum sjálfum. Þeir sem gera þessar ómálefnalegu athugasemdir við efasemdir okkar kóvitana virðist sumir halda að vandamálið sem við stöndum frammi fyrir sé læknisfræðilegt. Ég get fullvissað þetta fólk um að þó að veigamiklir þættir í vandanum séu læknisfræðilegir þá er svörun yfirvalda við honum það bara alls ekki.

Faraldursfræði telst til læknisfræði en það byggir meira á fortíð en nútíð. Faraldursfræði í heimi nútímans, þar sem fólk streymir um alla kúluna í milljónatali á hverjum degi, í heimi heimsfaraldra þar sem ekkert ónæmi er til staðar, er í reynd ekki læknisfræði nema að litlum hluta. Læknisfræðin, líffræðin, lífeðlisfræðin, lífefnafræðin, lyfjafræðin, erfafræðin, eru krítísk atriði í að skilja sjúkdóma, finna lækningu, skilja smitferli, smitnæmi, þróa lyf og svo framvegis.

Þegar þessir þættir liggja, mismikið, fyrir, er spurningin um svörun stjórnvalda kerfislegt vandamál, ekki læknisfræðilegt. Af lífsreynslu síðustu 3 - 4 vikna hef ég nú rökstuddan grun um að slatti af æðstu faraldsfræðingum stjórnvalda á vesturlöndum séu einfaldlega réttir og sléttir læknar og hafi því heldur lítið að leggja til faraldsfræða í heimi 21stu aldarinnar og svörun þeirra tilheyri síðustu öld eða þeirri þarsíðustu.

Hættið þess vegna ekki seinna en strax að gera í Covid-19 málum lítið úr skoðunum og málflutningi fólks, sem óvart er ekki læknar og ekki faraldsfræðingar, nema þið hafið eitthvað til málanna að leggja annað en "ertu læknir?, ertu sérfræðingur?"

Ég rata út.


Hin fullkomna martröð

SARS-Cov-2 veiran sem veldur Covid-19 sjúkdómnum er virkilega slæm martröð fyrir mannkynið. Næstum allt við þessa veiru leggst okkur á versta veg og það sem ekki nær þeirri slæmsku er samt hrikalega vont. Sýkin er svo lúmsk og langdreginn að hún nálgast að vera eins vond martröð og hægt er að hugsa sér. Ég vona heitt og innilega að við finnum silfurkúlu sem stútar þessum óvini en óttast að sú byssukúla sé ekki nægilega skammt undan til að forða okkur frá miklu mannfalli og miklu heilsutjóni. Amk virðist skynsamlegt að reikna ekki með að lækning finnist í hvelli. Þangað til er ágætt að fara yfir helstu atriði sem við vitum um SARS-Cov-2/Covid-19 jafnt og það sem við vitum ekki. Á þessari stundu er óvarlegt að gera ráð fyrir að það sem við vitum ekki muni þegar fram í sækir allt vera okkur hagstætt.

Sjúkdómurinn sem veiran veldur heitir Covid-19 og hann leggst mjög misþungt á fólk.

Hér eru nokkrir hlutir sem við vitum nú um SARS-Cov-2/Covid-19 og sumstaðar hvaða þýðingu ég telji þá vitneskju eða vitneskjuskort hafa varðandi skynsamleg viðbrögð:

1) Bráðsmitandi. Snertismit, nema hvað. Dropasmit, smitandi við innöndun á örsmáum (ósýnilegum) dropum úr andardrætti, hósta eða hnerra smitaðs einstaklings. Þ.e.a.s. ef þú ert nálægt sýktum einstaklingi í tiltölulega skamman tíma eru talsverðar eða miklar líkur á sýkingu. Það er raunverulegur möguleiki að þú smitist við að sækja mjólk eða ost í kjörbúð. Ekki dvelja lengi í búðinni og haltu þig eins langt frá öðru fólki og kostur er. Vertu heima eins mikið og þú getur og slepptu öllum mannamótum.

2) Að bestu manna vitan koma sjúkdómseinkenni í langflestum tilvikum fram á 1. - 13. degi. Að meðaltali koma einkenni fram eftir fimm daga frá smiti og miðgildistími einkeinnabirtingar er á svipuðuðu róli.

3) Staðfest er að sýktir eru smitandi áður en einkenna verður vart. Ekki er hægt að útiloka að smitun sé meiri áður en einkenni birtast en eftir enda eru ákveðnar vísbendingar sem hníga í þá átt. Sé svo er það óvenjulegt fyrir veirusjúkdóma en ekki útilokað. Semsagt, hver sem er getur verið öflugur smitberi þó engin einkenni um sjúkdóm séu til staðar. Ástæðan fyrir að SARS faraldurinn 2003 var kveðinn niður á tiltöluga skömmum tíma og með tiltölulega litlu mannfalli er að í SARS 2003 smituðu sýktir lítið eða ekki fyrr en sjúkdómseinkenni birtust. Ef SARS-Cov-2 væri í sama smitgír værum við að öllum líkindum komin vel áleiðis í að útrýma sjókdómnum sem veiran veldur.

4) Börn sýkjast uþb í sama mæli og fullorðnir, veikjast þó sjaldan að ráði og mörg sýna alls engin einkenni. Ekki er vitað hversu smitandi börn eru né heldur hve lengi. Þessi vitneskjuskortur þýðir að glapræði er að hafa leik og grunnskóla opna áfram.

ÉG ENDURTEK, það er glapræði að loka ekki leik og grunnskólum á stundinni. Margir foreldrar eru nú þegar komnir í "heimavist" og geta þá haft börnin hjá sér. Eitthvað er um fólk sem samfélagið má ekki við að missa úr vinnu en hefur ekki gæslu fyrir börnin sín. Það þarf með öruggum hætti að leysa þennan vanda en allir aðrir ættu að draga börn sín úr leik og grunnskóla úr því stjórnvöld hafa flaskað á þessu. Þessi flöskun stjórnvalda er fyrirfram uþb ófyrirgefanleg nú þegar loks hefur verið komið á samkomubanni og skólalokunum.

5) Einkenni birtast hjá langflestum fyrir 14. dag frá sýkingu. Talið er nær öruggt að hjá sumum komi sjúkdómseinkenni ekki fram fyrr en eftir 14 daga en skiptar skoðanir eru um hve stór hluti sýktra fellur í þennan flokk. Rannsóknateymið sem í síðustu viku staðfesti að börn smitist í sama mæli og fullorðnir mat það svo að 9% smitaðra sýndu ekki einkenni fyrr en á 14. degi eða síðar, aðrir matsaðilar telja þetta hlutfall mun lægra. Sé hærri talan nær réttu lagi er grafalvarlegt ef stjórnvöld hleypa fólki úr sóttkví án smitprófs.

7) Aldraðir og fólk með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma er líklegra til að deyja úr sýkingunni. Þetta er ekki óvænt en er ekki öllum sérstök huggun. Vernda þarf aldraða og viðkvæma sérstaklega en til þess þarf virk úrræði. Tal um að vernda þurfi þessa hópi er hættulega lítið skjól eitt og sér.

6) Þeir sem ná bata eru sjúkir í 2 - 4 vikur. Þetta er mjög vel umfram ganginn í flestum sýkingum sem hrjá mannfólkið í massavís. Þetta þýðir að fólk sem sýkist er úr leik í 3 - 4 vikur. Þeir sem verða illa veikir geta þurft lungnavél vikum saman án þess að lifa sýkinguna af. Þetta setur gríðarlegt álag á heilbrigðiskerfið og er á að giska ástæðan fyrir að við fáum fregnir af því frá Ítalíu að aldraðir og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma fái bara alls enga meðferð við Covid-19. Þeir deyja bara eins týndur maður á jökli eða í eyðimörk.

7) Af greindum smitum er dánartíðni mjög há, sennilega á bilinu 1 - 3%. Varla mikið minna en 1% og ólíklega, en mögulega hærri en 3%.

8) Þó dánartala hjá ungu fólki og börnum sé lág miðað við aðra hópa er hún margfalt hærri en í inflúensu.

9) Hjarðónæmi, þeas þegar stór hluti fólks er orðið ónæmt fyrir sóttkveikju vegna þess að ónæmiskerfi þeirra kann, vegna bólusetningar eða sýkingar, að ráða niðurlögum sóttkveikjunnar slítur það sundur smitkeðjur. Alls óvíst er að hvort varanlegt hjarðónæmi geti myndast gegn SARS-Cov-2. Venjulegt kvef er af völdum nokkurra tegunda kórónaveira og við því eru enn engin bóluefni. Inflúensa stökkbreytist reglulega og menn þurfa að giska á hvernig inflúensuveiran breytist þegar bóluefni er framleitt fyrir komandi árlegan flensutíma. Stundum tekst vel til og fáir veikjast en stundum síður og þá veikjast fleiri. Ákveðin ónæmiskerfismótstaða sem slakt bóluefnisval veitir er þó talin vera gagnleg þó flensubóluefnið hitti ekki alveg í mark einhver ár. Við vitum bara ekki rassgat (afsakið orðbragðið) um hvort Covid-19 sýking sem menn ná sér af dugi til að framkalla tímabundið ónæmi hvað þá frambúðarónæmi. Prívat og persónulega er minn grunur að sýktir sem hafa náð bata séu á þessum tímapunkti með talsvert eða nánast fullkomið ónæmi fyrir sjúkdómnum þvi fréttir um endursýkingar ofl eru fáar þó þær séu til. En semsagt, enginn veit hvort menn verða ónæmir fyrir Covid-19 eða mögulegum stökkbreytingum veirunnar ef þeir hafa sýkst en lifað af.

10) Þeir sem verða illa veikir en lifa af eru margir með sködduð lungu. Engin veit hvort sá skaði gengur til baka. Óvissan um hvort hjarðónæmi myndist og hvort lungnaskaði af Covid-19 getur gengið til baka þýðir m.a. að áætlun breskra stjórnvalda um að keyra sjúkdómin hægt og rólega í gegnum samfélagið með hjarðónæmismyndun sem takmark er fullkomlega óábyrg og ótæk. Eða ætla bresk stjórnvöld virkilega að veðja lungum milljóna Breta á ósannaða hjarðónæmistilgátu? Þar til við vitum meira er eina trygga leiðin í stríðinu við SARS-Cov-2 að stöðva smit eins hratt og mögulegt er og með öllum tiltækum ráðum. Ráðin sem vitað er að virka eru félagsleg fjarlægð/aðgreining, prófanir, rakningar, einangrun.

11) Mögulegt er að sumarhiti dragi úr eða stöðvi útbreiðslu Covid-19, en enginn getur gefið sér það sem vissu. Þvert á móti virðist varkárt að reikna með að smit verði algengt þrátt fyrir aðvífandi sumarkomu í Evrópu. Í Manila á Filipseyjum er hitastig nú á bilinu 25 - 35 gráður en þrátt fyrir það breiðist veiran út þar og samfélagslokun er þegar hafin.

Við þurfum vinna bug á SARS-Cov-2/Covid-19 og það mun mannkynið gera. Spurningin er: hvað mun það kosta, og þá er ég ekki að tala um dollaraupphæð?. Í allra, allra versta falli kostar það stórkostlegar einangrunar og fórnaraðgerðir um áraraðir en í besta falli finnum við ráð sem duga flestum á næstu mánuðum.


Valkvæm sóttkví fyrir viðkvæma - STRAX!

Nú er orðið ljóst að Covid-19 samfélagssmit verður ekki umflúið á vesturlöndum. Ísland er á nokkrum dögum orðið margfaldur heimsmeistari í greindum smitum miðað við höfðatölu. Ekkert  bendir til að hér sé um tölfræðilega tilviljun að ræða, enda má finna af fréttir af hópum sem snéru til síns heima (í Evrópulöndum) smitaðir úr skíðaferðum í Ölpunum fyrir uþb mánuði síðan. Gera má því skóna að "árangur" Íslendinga skýrist einfaldlega af kraftmeiri og markvissari smitprófunum en aðrir hafa gripið til. Með öðrum orðum standa líkur til að smit séu mjög vangreind í Evrópu og í reynd sé veiran komin út um allt. Þá er bara tímaspursmál hvenær þeim fjölgar mjög sem veikjast illa og deyja. Við erum að tala um daga eða par vikur.

Baráttan við sóttkveikjuna hefur hingað til beinst að því að koma í veg fyrir að hún nái fótfestu í samfélaginu en gera verður ráð fyrir að sú barátta sé nú töpuð í Evrópu og Norður-Ameríku. Því þarf að beina öllum kröftum að því að koma í veg fyrir að þeir sem eru fyrirfram í mestri lífshættu fái Covid-19, hefta útbreiðslu sjúkdómsins með öllum tiltækum ráðum og verja takmarkaða getu heilbrigðiskerfisins til að sinna þeim sem veikjast illa.

Þetta þrennt hangir reyndar saman. Ef við grípum ekki til tafarlausra aðgerða til að vernda viðkvæma má búast við að þeir þurrki upp og teppi gjörgæslurými og öndunarvélar fyrr en varir, jafnvel án þess að lifa á sjúkdóminn af á endanum. Þeir sem eru fyrifram í viðkvæmri stöðu eru, að því er best er vitað, aldraðir og einstaklingar með ýmsa alvarlega/langvinna sjúkdóma. Þessir viðkvæmu aðilar vita sjálfir hverjir þeir eru. Að auki eru í heilbrigðiskerfinu upplýsingar um hverjir þetta gætu verið.

Margir þeirra sem eru í sérstakri hættu eru utan vinnumarkaðar vegna t.a.m. aldurs eða örorku. En aðrir eru í fullu starfi og sumir þeirra eru daglega í snertingu við marga, jafnvel mjög marga, einstaklinga úr ólíkum áttum. Þetta fólk er jafn ómissandi og aðrir. Amk svo ómissandi að við megum til með að missa af þeim næstu vikur svo við missum þau ekki endanlega og til frambúðar.

Á öðrum vettvangi hef ég talað fyrir að einstaklingar í sérstakri áhættu verði settir, sjálfum sér og öðrum til verndar, í ótímabundna sóttkví. Það er etv óþarflega róttækt, kannski þarf ekki að skikka neinn, en að lágmarki verður að bjóða þessum einstaklingum sjálfdæmi um hvort þeir haldi sig heima næstu vikur til að forðast smit.

Ummæli sem ég hef séð víða um að umstangið og fjölmiðlafárið kringum Covid-19 sé yfirdrifið eru á misskilningi byggð. Algengt er að td að bera Covid-19 saman við inflúensu sem vissulega leggur marga að velli árlega. Hér er þó ólíku saman að jafna. Allstór hluti landsmanna og flestir í viðkvæmri stöðu eru bólusettir árlega gegn inflúensu og það ver þá flesta auk þess að leggja grunninn að hjarðónæmi. Á hinn bóginn smitast Covid-19 mun auðveldar en inflúensa og enginn er ónæmur, hjarðónæmi er ekkert og dánartíðni Covid-19 talin margfalt hærri en inflúensu.

Semsagt Covid-19 er grafalvarlegur sjúkdómur og viðbrögð yfirvalda og fjölmiðla eru síst yfirdrifin, þvert á móti.

Næsta skref: Einstaklingar í sérstakri hættu ef þeir smitast geti sjálfviljugir kosið sér sóttkví næstu vikur.


Forstjóri Icelandair - Fæddur í gær?

Þessar pillur frá forstjóra Icelandair koma úr, tja, allra hörðustu átt.

Hvenær hefur Icelandair selt öll flugsæti yfir kostnaðarverði? Svarið við því er aldrei. Það er í eðli áætlunarflugsstarfsemi í samkeppni og með árstíðasveiflu að reglulega (og óreglulega) er sú staða uppi að sætaframboðið allt er selt undir kostnaðarverði. Þessi nýji forstjóri er bara alger nýgræðingur ef hann hefur ekki komið auga á þetta í afkomutölum Icelandair. Sérkennilegt í meira lagi.

Hvenær hefur Icelandair þurft á velvild og sérstökum stuðningi íslenska ríkisins að halda? Svarið við því er oft og mörgum sinnum, reyndar oftar en ég kæri mig um að muna.

Hvenær hefur íslenska ríkið snúið baki við Icelandair? Svarið við því er aldrei.

Hvenær hefur Wowair notið sérstaks stuðnings, eða yfirhöfuð nokkurs stuðnings, frá lífeyrissjóðum? Aldrei.

Hvenær hefur Wowair notið sérstaks stuðnings, eða yfirhöfuð nokkurs stuðnings, frá íslenska ríkinu? Aldrei, nema mögulega í greiðsludrætti á lendingargjöldum í þetta sinn.

Hver er sparnaður Íslendinga í flugfargjöldum verið síðustu ár? Sparnaður sem hefur verið knúinn af Wowair. Svarið við því er milljarðar á milljarða ofan.

Hvaða virðisauka hefur flugrekstur Wowair lagt grunninn að í íslenskum þjóðarbúskap? Svarið við því geri ég ráð fyrir að sé talið í hundruðum milljarða.

Nýburinn í forstjórastóli Icelandair virðist bara alveg glórulaus um flugrekstur, þar með talið rekstur Icelandair og ekki síst algerlega glórulaus um sögu Icelandair.

Svo má benda forstjóranum Icelandair á hve ósmart það er að sparka í liggjandi mann. Ekki vera ósmart!

Auðvitað óska ég báðum þessum flugfélögum, Icelandair og Wowair alls hins besta.


mbl.is Hegðun Isavia „illskiljanleg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattar og ferðaþjónusta - Allir hafa rétt fyrir sér!

Í umræðunni um virðiskaukaskatt á ferðaþjónustu togast á ólík sjónarmið en það er hugsanlegt að þau eigi öll uþb jafn mikinn rétt á sér.

 

a) Ríkisstjórnin segir að allar atvinnugreinar eigi að sitja við sama borð í skattalegu tilliti, það sé jafnræði. Þetta er einfalt, auðskiljanlegt og þar með auðvelt að taka undir.

Pæling: Atvinnugreinar munu í náinni framtíð ekki frekar en endranær sitja við sama skattaborðið. Kvikmyndageirinn sem er í alþjóðlegri samkeppni hefur lengi verið í öðrum skattaveruleika en aðrir, en það er vegna þess að allsstaðar er veittur skattafsláttur af þessari starfsemi. Ef afsláttur væri ekki til staðar gæti vel verið að engin yrði hér erlend kvikmyndagerð, burtséð frá því hvort hér gæti verið hagstætt að taka upp myndir án skattafsláttar. Ferðaþjónustan er nú þegar í ákveðnu ofurskattaumhverfi. Ég giska td á að áfengisneysla sé að jafnaði nokkur í "ferðalögum" og í skattlagningu þeirrar neyslu standa Íslendingum fáir á sporði. Það er möguleiki að íslensk ferðaþjónusta standist ekki með sama hætti og nú án lægra þreps í VSK. Kvótagreifar og bændur eru svo í sérstaklega afmörkuðum mismunandi alheimum, sem er önnur saga geymd til annars dags.

 

b) Ferðaþjónustan segir að launahækkanir og gengisstyrking hafi hirt af þeim allt svigrúm til rekstrarafgangs. Það blasir við öllum að amk fyrir suma gæti þetta raunverulega verið, tja, raunin.

Pæling: Laun hafa hækkað langt umfram mögulega skattahækkun og gengi krónunnar hefur undanfarið eitt og hálft ár styrkst um margfalda mögulega skattahækkun. Það tekur langan tíma fyrir áhrif þessara hækkana að koma fram í minnkuðum straumi ferðamanna til landsins. Þau áhrif dreifast að líkindum á hálft til tvö ár. Á hinn bóginn er á að líta að þó Ísland sé dýrt land eru laun ekki stjarnfræðileg, né heldur byggingar- og rekstrarkostnaður hótela. Gengisstyrkingin hefur ekki bara lækkað framlegð af sölu td gistingar í erlendum gjaldeyri heldur hafa mörg aðföng lækkað í verði af sömu ástæðu. Íslensk hótelgisting er rándýr en herbergjanýting hér er með því hæsta sem þekkist á byggðu bóli. Það er varla sérstakt réttlætismál að hóteleigendur nái að greiða niður fjárfestingu sína á örfáum árum á kostnað annarrar atvinnustarfsemi.

 

c) Hagkerfið er að ofhitna vegna ferðaþjónustunnar og gengisstyrking vegna innflæðis gjaldeyris af hennar völdum er að setja allar útflutningsgreinar í hættu og veldur ofrisi í einkaneyslu.

Pæling: Setjum VSK í sama þrep og önnur atvinnustarfsemi svo mótvægisaðgerðir bitni ekki á öðrum en ferðaþjónustunni. Þetta er besti punkturinn en við vitum ekki hvort nú þegar sé búið að ofkæla ferðamannastrauminn með launahækkunum og gengisstyrkingu. Það veit enginn. Að orðnum miklum launahækkunum og stórfelldri gengisstyrkingu er etv óvarlegt að höggva snemmhendis í sama knérunn með sköttum sem bæta 10 - 20% ofan á verðlag í þessum geira áður en við vitum hvert hitastig greinarinnar verður eftir ár. Ofhitnun er slæm en kannski er ofkæling verri.

 

d) Svo er auðvitað enn einn möguleiki. Að eftirspurn eftir Íslandi sé svo mikil að praktískt skipti það engu máli hve háir skattar á ferðaþjónustu séu og hve mikið verðlag hækki fyrir túrista, heldur séu allar flugvélar fullar af túristum.


Íslensk stjórnmál taka tennur, vonandi fullorðinstennur.

Tannheilsa, sjúkratryggingar, réttlæti

Það þótti fréttnæmt í vikunni að Píratar samþykktu að tannheilsa væri ekki ómerkilegri heilsa en önnur heilsa og þar með að tannheilsugæsla væri ekki ómerkilegri en önnur heilsugæsla. Einhverjir spurðu hvað kostar það en þeim sem næmasta skopskynið hafa fannst þetta meðal annars fyndið. Förum aðeins yfir þetta á hundavaði.

Einhverra hluta vegna er eins og sumum finnist að góð eða slæm tannheilsa sé alfarið á ábyrgð einstaklinganna. Menn geti ekki þurft heilsugæslu á því sviði nema þeir hafi á einn veg eða annan komið sér í þá stöðu sjálfir og eigi þar af leiðandi að bera kostnaðinn einir. Þó við gæfum okkur að þetta væri rétt, sem það augljóslega er ekki, má hið sama segja um marga heilbrigðisóáran hvers bót er engu að síður greidd úr samfélagssjóði. Það er engu líkara en það sé erfiður hjalli að komast yfir að átta sig á að afdrif tannheilsu eru ekki ósvipuð afdrifum annarrar heilsu. Sjálfskaparvíti er einfaldlega óboðleg rök gegn því að tannheilsa falli undir almannatryggingar.

Samfélagið hefur ákveðið að heilbrigðisþjónusta skuli vera fyrir alla án tillits til efnahags eða stöðu og skattar, miklir skattar, eru innheimtir með valdi til að standa straum af henni. Hér er um tryggingu að ræða og loforð um að engum sé mismunað. En hvað með manninn sem glímir aldrei við önnur vandamál en tannheilsuna, hver tryggir hann. Hvaða fé hefur hann yfir að ráða til greiða fyrir sína lækningu þegar samfélagið hefur hirt af honum stórfé árin löng til að greiða heilsuvernd allra annarra. Hvað réttlætir þessa útskúfun. Svarið er einfalt, alls ekkert. Annað hvort er heilbrigðiskerfið fyrir alla án tillits til hvar í kroppnum menn glíma við vandamál eða við horfumst í augu við að við styðjum hvorki jafnræði né sanngirni, styðjum ekki réttlæti. Vill einhver standa upp og viðurkenna það? Nei, hélt ekki.

Kostnaðurinn

Það er allt í lagi að tala um kostnað en það er lífsseig trú að tannlækningar séu dýrar, dýrari en aðrar lækningar. Tannlækningar eru sannarlega ekki ódýrar, ekki frekar en aðrar lækningar, en ef þær væru óeðlilega dýrar sæist þess stað í tekjum tannlækna. Víst hafa margir tannlæknar dágóðar tekjur en af tekjublaði Frjálsrar verslunar verður ekki merkt að þeir hafi meiri tekjur en annarskonar læknar. Ég hygg að sjúkratryggingakerfið sjálft valdi þessari skynjun. Munurinn felst væntanlega að stærstum hluta í því að í tilfelli tannlækninga er reglan sú að sjúklingur greiðar allan kostnað sem oftar en ekki innifelur dýr lyf, dýr efni og allan stofukostnað. Í flestum öðrum læknisverkum greiðir sjúklingurinn hluta kostnaðarins en læknirinn sendir ríkinu, þegar sjúklingurinn sér ekki til, reikning fyrir mismuninum og ennfremur er stofukostnaður oft undanskilin (greiddur af ríki eða sveitarfélagi) og lyf eru sjaldnast innifalin. Ég yrði ekki vitund hissa á að tannlæknirinn kæmi vel út ef allur kostnaður væri borinn saman.

Á endanum mun samfélagið í heild ekki greiða meira fyrir tannheilsu þó hún falli undir almannatryggingar. Tal um aukinn kostnað er rugl. Ef sjúkratryggingar eru formlegur greiðandi tannlækninga er það vegna þess að sjúklingarnir eru hættir borga þá þjónustu beint úr eigin vasa. Greiðslur fyrir tannheilbrigðisþjónustu verða bara inntar af hendi á annan hátt en nú og við munum á heildina litið ekki einungis upplifa betri tannheilsu heldur betri heilsu. Ef við ætlum á annað borð að hafa samfélagsrekna heilbrigðisþjónustu þá eru einfaldlega engin heilbrigð rök fyrir því að undanskilja tannlækningar.

Við skulum því öll sem styðjum samfélagstryggingu heilsugæslu sameinast um að vinda sem bráðastan bug á réttlætisyfirsjón okkar og koma tannlækningum fyrir í heilbrigðiskerfinu á sama hátt og öðrum lækningum.

Nýjar tennur

Margir upplifa óþægindi af tanntöku þó við höfum mörg gleymt þeim á fullorðinsárum. Óþægindi sem hlotist hafa af ákvörðunum eða yfirsjónum stjórnvalda finnast mér stundum eins og íslensk stjórnmál séu ekki búin að taka barnatennur, hafi ekki enn slitið þeim, eða það sem er verra, verið með falskar tennur. Tíminn frá bankahruninu er í stjórnmálunum búinn að vera eins og samfelld óþægileg tanntaka. Nú eru nýjar tennur að koma í ljós, vonandi heilbrigðar, vonandi gleymum við óþægindum fortíðar með tíð og tíma, vonandi fullorðinstennur, vonandi Píratar.

Gefum barnatönnunum og gömlu fölsku tönnunum frí, kjósum heilbrigðar tennur, kjósum Pírata. Mín von er að Píratar verði þær fullorðinstennur sem við þurfum á að halda og munum að góð tannhirða verðlaunar sig sjálf.


Samgöngur ekki bara aðalatriði, heldur Aðalatriðið.

Því miður skipta kosningaúrslitin í Reykjavík miklu máli fyrir mun fleiri en Reykvíkinga eina.  Skipulagsmálin í Reykjavík eru í einum allsherjar graut í umræðunni.  Í raun er um fjögur stór aðskilin mál að ræða:

  • Þétting byggðar.
  • Flugvöllurinn fari.
  • Staðsetning nýs Landsspítala.
  • Minnkun afkastagetu samgöngumannvirkja og fækkun bílastæða.
Hvert þessara mála virðist rekið áfram, af sitjandi borgarstjórn, sjálfstætt og óháð hinum þó þau hafi vissulega stóran snertiflöt að ræða og sá flötur er í daglegu tali nefndur samgöngur. T.d er þétting byggðar á döfinni burtséð frá því hvort flugvöllurinn fer eða er og óháð því hvort nýr spítali rís við hringbraut. Þá er að því er virðist stefnt að því að, ekki bara láta ógert að bæta umferðarmannvirki borgarinnar, heldur beinlínis eyðileggja þau.

Hverfisbundin þétting byggar er aukaatriði nema fyrir íbúa hverfisins. Ef t.d. allir íbúar í hverfi 107 eru sáttir við að hvísl um nótt leiði til kvartana til lögreglu um ónæði og þeir þurfi að leggja bílum sínum í 105, er það að mestu aukaatriði nema fyrir íbúa þessara hverfa.  Staðsetning moskunnar er aukaatriði.  Staðsetning nýja spítalans er aukaatriði ef aðgengið er gott, samgöngur til hans greiðar og jafnvægi í samgöngukerfi borgarinnar riðlast ekki um of.

En samgöngukerfi borgarinnar er ekki aukaatriði.  Það er ekki bara aðalatriði, það er beinlínis Aðalatriðið.  Samgöngur er allstaðar í heiminum aðalatriði. Góðar samgöngur eru hins vegar hjá sitjandi borgarstjórn göngustígar, hjólastígar og strætó, en alls ekki vegir og bílastæði.

Takist sitjandi meirihluta að koma fram stefnumálum sínum í umferðarmálum verður það stórfelld skerðing lífsgæða íbúa úthverfanna og nærliggjandi bæja.

Mér er fyrirmunað að skilja hvernig nokkur einasti úthverfabúi getur hugsað sér kjósa stjórnmálaöfl sem  vinna gegn hagsmunum þeirra, fjárhag og hamingju.

Bænahús og betri lóðir.

27. ágúst 1992 var skóflustunga tekin að Digraneskirkju við Gagnheiði 3 á Víghól í Kópavogi.  Kirkjan var hönnuð og búið að semja við verktaka.  Gagnheiði er í dag ekki til sem gata í Kópavogi að því er ég best veit og Digraneskirkja er svo sannarlega ekki á Víghól.  Í raun var þarna glæsilegt og ákjósanlegt kirkjustæði.  Að því er virðist tókst íbúum nærliggjandi húsa að tromma upp nægilega mikla andstöðu við staðsetningu kirkjunnar að á endanum var hætt við að reisa hana á Víghól og vorið 1993 var aftur tekin skóflustunga að Digraneskirkju en nú við Stútulaut.

100% öruggt er að söfnuði múslima á Íslandi ber að afhenda lóð eins og aðrir söfnuðir hafa notið.  Þá er líka 100% öruggt að sú lóð verður án gjalda fyrir söfnuðinn.  Það er af og frá að það standist stjórnskrá eða meðalhóf stjórnsýslulaga að breyta nú í skyndingu þeirri reglu að lóðir undir bænahús verði án nokkurs fyrirvara gjaldskyldar, hvað þá eftir að lóð hefur verið úthlutað eða loforð gefið.

Prívat og persónulega má moskan mín vegna vera í Sogamýri, en ég kysi frekar að henni væri fundinn enn glæsilegri staður, helst á Skólavörðuholtinu eða í póstnúmeri 107.  Dæmið sem ég nefndi í upphafi staðfestir að endanlegt er ekki endanlegt fyrr en það er endanlegt.


Kaupmáttur sá sami og í ágúst 2006?

25. febrúar 2014 mátti sjá fyrirsögn þessarar færslu á fréttum í flestum miðlum, en án spurningamerkisins.

Þann dag hafði Hagfræðideild Landsbankans látið hafa þetta eftir sér.  Þar sagði m.a.:

 

Sé litið til lengri tíma má segja að u.þ.b. helmingi af 

kaupmáttarfallinu sem varð í kjölfar hrunins hafi 

verið náð til baka. Kaupmáttur á mælikvarða 

launavísitölu var sá sami nú í janúar og var í ágúst 

2006. 

Einmitt það.  Hagfræðideildin er semsagt alls ekki að tala um kaupmátt minn eða þinn eins og halda mætti af fyrirsögninni, heldur einhvern kaupmátt launavísitölu.  Mér hefur ekki tekist að nota launavísitölu til að greiða lán, reikninga, mat, tryggingar eða yfirhöfuð nokkurn skapaðann hlut.  Til þess arna get ég ekki nýtt annan beinan afrakstur atvinnu en útborguð laun eftir að skattar og  skyldulífeyrisframlag hefur verið klipið af þeim.
 
Þróun útborgaðra heildarlauna á almennum vinnumarkaði á tímabilinu 2006 til og með 2013 er sýnd á myndinni:
 

verdlag_og_laun_2006-2013
 
Heimildir eru Hagstofan, RSK og eigin útreikningur.  Tvö gildi á myndinni eru spáð (og nokkuð örugglega er sú spá of há): þ.e.a.s. launin eftir skatt á árinu 2013.   Það sem vantaði uppá að meðalmaðurinn hefði sama kaupmátt árið 2013 með útborguðum launum og var árið 2006 er  16,4% hækkun útborgaðra launa.  Þessi tala 16,4% er reyndar vanmat á stöðu meðalmannsins, því margir urðu atvinnulausir í kringum hrunið sem þýddi oftar en ekki mikinn tekjumissi auk þess sem opinberir starfsmenn hafa hækkað minna í launum frá 2006 en þeir sem eru á almenna markaðnum.
 
Seðlabankinn hefur síðan undanfarin misseri lofað (hótað) að refsa grimmilega fyrir launabætur sem eru umfram framleiðniaukingu í hagkerfinu.  M.ö.o.  þá er það stefna Seðlabankans að kaupmáttur ársins 2006 sjáist ekki í buddu meðalmannsins fyrr en í fyrsta lagi eftir svo sem 6 - 16 ár.  Bankinn hefur því að því er virðist ákveðið að núverandi skipting þjóðarkökunnar sé eðlilegri en skipting sem felur í sér stærri hlutdeild launþega.

Vonandi verður fyrirsögn Hagfræðideildar Landsbankans sönn einhverntíma.  Miðað við stefnu Seðlabankans og fleiri áhrifamikilla aðila verður það varla fyrr en í fyrsta lagi á þriðja áratug þessarar aldar þ.e.a.s. á árabilinu 2020 - 2030.
 
 
 

Aðalkosningamálið með meiri stuðning!

Við skulum ekki gleyma því að Dögun og Flokkur heimilanna fengu samanlagt meira en 6% greiddra atkvæða í þingkosningunum og höfðu bæði framboðin amk jafn einarða stöðu gagnvart skuldaleiðréttingum og Framsókn.  Þannig má segja að aðalkosningamál Framsóknar hafi fengið talsvert meiri stuðning hjá kjósendum en fylgi Framsóknarflokksins eitt gefur til kynna.

Mér finnst meira en sjálfsagt að forsetinn leggi þessi 6+ prósent á vogarskálarnar þegar hann metur kosningaúrslitin.  Sjálfstæðisforustan eru náttúrulega óánægð með þetta, því hún er ekki nema volg í skuldaleiðréttingarmálum þó meirihluti sé sennilega ríflegur í því máli meðal stuðningsmanna flokksins.


mbl.is „Hvað vakir fyrir Ólafi Ragnari?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Björn Ragnar Björnsson
Björn Ragnar Björnsson

Duglegur í byggingarvinnu og glöggur á tölur.  Var framboði til stjórnlagaþings með númer 9838. Hlaut smásjárfylgi en er sáttur. Engum háður. Hafði aldrei verið í stjórnmálaflokki áður en ég gekk til liðs við Pírata. Markmið með framboði var að vinna einungis að hagsmunum þjóðarinnar í nútíð og framtíð. Er einn örfárra einstaklinga sem gert hefur efnislegar athugasemdir til þingnefndar við breytingar á stjórnarskrá í fyrndinni.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband