Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Kaupmáttur sá sami og í ágúst 2006?

25. febrúar 2014 mátti sjá fyrirsögn þessarar færslu á fréttum í flestum miðlum, en án spurningamerkisins.

Þann dag hafði Hagfræðideild Landsbankans látið hafa þetta eftir sér.  Þar sagði m.a.:

 

Sé litið til lengri tíma má segja að u.þ.b. helmingi af 

kaupmáttarfallinu sem varð í kjölfar hrunins hafi 

verið náð til baka. Kaupmáttur á mælikvarða 

launavísitölu var sá sami nú í janúar og var í ágúst 

2006. 

Einmitt það.  Hagfræðideildin er semsagt alls ekki að tala um kaupmátt minn eða þinn eins og halda mætti af fyrirsögninni, heldur einhvern kaupmátt launavísitölu.  Mér hefur ekki tekist að nota launavísitölu til að greiða lán, reikninga, mat, tryggingar eða yfirhöfuð nokkurn skapaðann hlut.  Til þess arna get ég ekki nýtt annan beinan afrakstur atvinnu en útborguð laun eftir að skattar og  skyldulífeyrisframlag hefur verið klipið af þeim.
 
Þróun útborgaðra heildarlauna á almennum vinnumarkaði á tímabilinu 2006 til og með 2013 er sýnd á myndinni:
 

verdlag_og_laun_2006-2013
 
Heimildir eru Hagstofan, RSK og eigin útreikningur.  Tvö gildi á myndinni eru spáð (og nokkuð örugglega er sú spá of há): þ.e.a.s. launin eftir skatt á árinu 2013.   Það sem vantaði uppá að meðalmaðurinn hefði sama kaupmátt árið 2013 með útborguðum launum og var árið 2006 er  16,4% hækkun útborgaðra launa.  Þessi tala 16,4% er reyndar vanmat á stöðu meðalmannsins, því margir urðu atvinnulausir í kringum hrunið sem þýddi oftar en ekki mikinn tekjumissi auk þess sem opinberir starfsmenn hafa hækkað minna í launum frá 2006 en þeir sem eru á almenna markaðnum.
 
Seðlabankinn hefur síðan undanfarin misseri lofað (hótað) að refsa grimmilega fyrir launabætur sem eru umfram framleiðniaukingu í hagkerfinu.  M.ö.o.  þá er það stefna Seðlabankans að kaupmáttur ársins 2006 sjáist ekki í buddu meðalmannsins fyrr en í fyrsta lagi eftir svo sem 6 - 16 ár.  Bankinn hefur því að því er virðist ákveðið að núverandi skipting þjóðarkökunnar sé eðlilegri en skipting sem felur í sér stærri hlutdeild launþega.

Vonandi verður fyrirsögn Hagfræðideildar Landsbankans sönn einhverntíma.  Miðað við stefnu Seðlabankans og fleiri áhrifamikilla aðila verður það varla fyrr en í fyrsta lagi á þriðja áratug þessarar aldar þ.e.a.s. á árabilinu 2020 - 2030.
 
 
 

Höfundur

Björn Ragnar Björnsson
Björn Ragnar Björnsson

Duglegur í byggingarvinnu og glöggur á tölur.  Var framboði til stjórnlagaþings með númer 9838. Hlaut smásjárfylgi en er sáttur. Engum háður. Hafði aldrei verið í stjórnmálaflokki áður en ég gekk til liðs við Pírata. Markmið með framboði var að vinna einungis að hagsmunum þjóðarinnar í nútíð og framtíð. Er einn örfárra einstaklinga sem gert hefur efnislegar athugasemdir til þingnefndar við breytingar á stjórnarskrá í fyrndinni.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband