Leita í fréttum mbl.is

Valkvæm sóttkví fyrir viðkvæma - STRAX!

Nú er orðið ljóst að Covid-19 samfélagssmit verður ekki umflúið á vesturlöndum. Ísland er á nokkrum dögum orðið margfaldur heimsmeistari í greindum smitum miðað við höfðatölu. Ekkert  bendir til að hér sé um tölfræðilega tilviljun að ræða, enda má finna af fréttir af hópum sem snéru til síns heima (í Evrópulöndum) smitaðir úr skíðaferðum í Ölpunum fyrir uþb mánuði síðan. Gera má því skóna að "árangur" Íslendinga skýrist einfaldlega af kraftmeiri og markvissari smitprófunum en aðrir hafa gripið til. Með öðrum orðum standa líkur til að smit séu mjög vangreind í Evrópu og í reynd sé veiran komin út um allt. Þá er bara tímaspursmál hvenær þeim fjölgar mjög sem veikjast illa og deyja. Við erum að tala um daga eða par vikur.

Baráttan við sóttkveikjuna hefur hingað til beinst að því að koma í veg fyrir að hún nái fótfestu í samfélaginu en gera verður ráð fyrir að sú barátta sé nú töpuð í Evrópu og Norður-Ameríku. Því þarf að beina öllum kröftum að því að koma í veg fyrir að þeir sem eru fyrirfram í mestri lífshættu fái Covid-19, hefta útbreiðslu sjúkdómsins með öllum tiltækum ráðum og verja takmarkaða getu heilbrigðiskerfisins til að sinna þeim sem veikjast illa.

Þetta þrennt hangir reyndar saman. Ef við grípum ekki til tafarlausra aðgerða til að vernda viðkvæma má búast við að þeir þurrki upp og teppi gjörgæslurými og öndunarvélar fyrr en varir, jafnvel án þess að lifa á sjúkdóminn af á endanum. Þeir sem eru fyrifram í viðkvæmri stöðu eru, að því er best er vitað, aldraðir og einstaklingar með ýmsa alvarlega/langvinna sjúkdóma. Þessir viðkvæmu aðilar vita sjálfir hverjir þeir eru. Að auki eru í heilbrigðiskerfinu upplýsingar um hverjir þetta gætu verið.

Margir þeirra sem eru í sérstakri hættu eru utan vinnumarkaðar vegna t.a.m. aldurs eða örorku. En aðrir eru í fullu starfi og sumir þeirra eru daglega í snertingu við marga, jafnvel mjög marga, einstaklinga úr ólíkum áttum. Þetta fólk er jafn ómissandi og aðrir. Amk svo ómissandi að við megum til með að missa af þeim næstu vikur svo við missum þau ekki endanlega og til frambúðar.

Á öðrum vettvangi hef ég talað fyrir að einstaklingar í sérstakri áhættu verði settir, sjálfum sér og öðrum til verndar, í ótímabundna sóttkví. Það er etv óþarflega róttækt, kannski þarf ekki að skikka neinn, en að lágmarki verður að bjóða þessum einstaklingum sjálfdæmi um hvort þeir haldi sig heima næstu vikur til að forðast smit.

Ummæli sem ég hef séð víða um að umstangið og fjölmiðlafárið kringum Covid-19 sé yfirdrifið eru á misskilningi byggð. Algengt er að td að bera Covid-19 saman við inflúensu sem vissulega leggur marga að velli árlega. Hér er þó ólíku saman að jafna. Allstór hluti landsmanna og flestir í viðkvæmri stöðu eru bólusettir árlega gegn inflúensu og það ver þá flesta auk þess að leggja grunninn að hjarðónæmi. Á hinn bóginn smitast Covid-19 mun auðveldar en inflúensa og enginn er ónæmur, hjarðónæmi er ekkert og dánartíðni Covid-19 talin margfalt hærri en inflúensu.

Semsagt Covid-19 er grafalvarlegur sjúkdómur og viðbrögð yfirvalda og fjölmiðla eru síst yfirdrifin, þvert á móti.

Næsta skref: Einstaklingar í sérstakri hættu ef þeir smitast geti sjálfviljugir kosið sér sóttkví næstu vikur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Björn Ragnar Björnsson
Björn Ragnar Björnsson

Duglegur í byggingarvinnu og glöggur á tölur.  Var framboði til stjórnlagaþings með númer 9838. Hlaut smásjárfylgi en er sáttur. Engum háður. Hafði aldrei verið í stjórnmálaflokki áður en ég gekk til liðs við Pírata. Markmið með framboði var að vinna einungis að hagsmunum þjóðarinnar í nútíð og framtíð. Er einn örfárra einstaklinga sem gert hefur efnislegar athugasemdir til þingnefndar við breytingar á stjórnarskrá í fyrndinni.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband