Leita í fréttum mbl.is

Sjálfstæðisflokkurinn, íbúðalánin og gæfusmíðin.

“Hver er sinnar gæfusmiður. Hafi menn skuldsett sig of mikið bera þeir vitanlega ábyrgð á því.“ Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans 22. sept. 2008.

Ég vil útvíkka þetta aðeins: Hver er sinnar gæfu smiður. Menn ráða því sjálfir hvort þeir afgreiða á kassa eða eru bankastjórar.

Ég er nú frekar hlynntur skattalegri hvatningu ef það styður beint við uppbyggingu hagkerfisins, þ.e. fjárfestingu og atvinnusköpun, t.d. nýsköpun, rannsóknir og þróun.  Ef ég man rétt var Sjálfstæðisflokkurinn allan tíunda áratuga síðustu aldar alveg að fara að koma á skattafslætti vegna rannsókna og þróunar (e: R&D). Eftir að Ísland varð alþjóðleg fjármálamiðstöð, eins og heimsfrægt er orðið, hættu menn alveg að ræða svona skattafslætti.

Nú er Sjálfstæðisflokkurinn aftur kominn af stað með hugmyndir um skattalega hvata, en ekki til atvinnuuppbyggingar í þetta sinn.  Flokkurinn er nú á þeirri skoðun að almenn leiðrétting verðtryggðra (aðallega húsnæðis-) lána sé ekki góð hugmynd.  Í staðinn vill flokkurinn hvetja fólk til að borga inn á húsnæðislánin sín með eigin peningum.  Ríkið gefi svo þeim sem duglegastir eru að borga afslátt af sköttum.

Skoðum þetta aðeins nánar:

Í fyrsta lagi vill flokkurinn að menn geti fengið allt að 40 þúsund króna skattafslátt á mánuði (480 þús á ári) með því einu að greiða íbúðalánin sín.  Séu menn með greiðslubyrði upp á 100 þús á mánuði greiða þeir það, en ríkið bætir um betur og borgar 40 þúsund inn á höfuðstól lánsins.

  1. Þeir sem skulda lítið eða ekkert, labba sig rakleiðis í næsta banka og slá lán uppá 7 milljónir til fimm ára (4% fastir vextir)).  Greiðslubyrði er ca. 100 þúsund á mánuði.  Þeir kaupa sig inn í ríkisbréfasjóð með hluta af láninu. Svo borga menn úr sjóðseigninni 100 þúsund á mánuði en ríkið bætir við 40 þús. Sjóðseignin  plús ríkisframlagið gera talsvert meira en að standa undir láninu.  Semsagt þessir aðilar fá afsláttinn næstum frítt, eða með öðrum orðum ríkið hefur gefið þeim  nærri hálfa milljón króna á ári sem það hefði annars tekið í skatta, án þess að viðkomandi hafi lagt neitt undir. Þessi hópur fær svo til allan afsláttinn 40 þús króna á mánuði beint inn í ráðstöfunartekjur, með því bara að hirða hann að mestu úr lánsupphæðinni strax.
  2. Það er vissulega satt að réttur og sléttur Jón fær sömu ívilnun hafi hann greiðslubyrði upp á 100 þús á mánuði.  Hann fær hinsvegar ekkert fyrir forsendubrestinn, ekkert fyrir tugaprósenta hækkun lánanna umfram ráðstöfunartekjur þrátt fyrir að greitt hafi verið af þeim um árabil. Fólkið í þessum hópi nýtur ekki aukinna ráðstöfunatekna fyrr en skattafslátturinn er búinn að klípa einhvern vænan bita úr höfuðstólnum, en það tekur einhver ár. Þeir sem hafa afhennt kröfuhöfum allar eigur sínar, íbúðin seld nauðungarsölu og / eða orðið gjaldþrota, fá ekkert, alls ekkert, útúr leið Sjálfstæðisflokksins. Sem betur fer getur forsendubrestsfólkið engum um kennt nema sjálfu sér.  Það græðgis og gamblaralið fær bara það sem það á skilið, er það ekki?
Í öðru lagi vill Sjálfstæðisflokkurinn að hver sem er geti borgað allan viðbótarlífeyrissparnað (ekki uppsafnaðann ef ég skil rétt) inn á höfuðstól íbúðalána sinna skattfrjálst.  Þetta er upphæð sem nemur 4% af tekjum viðkomandi.


Þetta er súperdíll fyrir þá sem hafa háar tekjur, því skattafslátturinn er um og yfir 40% (segjum 40% til einföldunar). Taflan hér fyrir neðan sýnir hve mikið menn geta greitt inn á höfuðstól íbúðalána sinna og hve mikið ríkið gefur eftir.

Tekjur á mánuði

Greitt inn á höfustól á mánuði

Skattafsláttur á mánuði

Skattafsláttur á ári

250 þús

10.000

4.000

48.000

500 þús

20.000

8.000

96.000

700 þús

28.000

11.200

134.400

1000 þús

40.000

16.000

192.000

3 milljónir

120.000

48.000

576.000

Þetta nýtist öllum sem geta sett tvö prósent tekna sinna í viðbótarlífeyri, líka þeim sem eru í basli með greiðslubyrði sína fyrir.  Einn bankastjórinn er einhversstaðar nærri síðustu tölunni (3 millj), en Þór Saari sagði eftir fund í okt. 2010 :

"Bankastjórarnir voru bara eins og ég veit ekki hvað í gærkvöldi. Ég held að það hafi verið forstjóri Arion banka [Höskuldur H. Ólafsson] sem fyrstur tók til máls og sagði almenna niðurfærslu skulda vera slæma lausn, það rökstuddi hann með því að segja að hann persónulega þyrfti ekkert á slíkri lausn að halda."

Ætli bankastjórinn myndi slá hendinni móti tilboði Sjálfstæðiflokksins? Varla, hann myndi labba í næsta banka og skrifa sjálfum sér til handa feitan skattafslátt með því einu að slá íbúðalán, afslátt sem væri meira en tífalt hærri í krónum en láglaunamanneskja á kost á. Kannski meinti bankastjórinn að hann þyrfti ekki niðurfærslu, því skattafsláttur hentaði honum betur.

Þetta er semsagt það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill frekar en að forsendubrestur sé leiðréttur.  Heimili með tekjur uppá milljón á mánuði og litlar skuldir í húsnæði getur án teljandi fyrirhafnar og án áhættu fengið 672 þúsund króna skattafslátt á ári bara með því að labba í bankann og slá lán sem greiðir sig nokkurn veginn sjálft.  Mér sýnist að besta leið bankastjórans sé að slá 7 milljón króna lán eins og áður var getið en lánið hjá bankastjóranum væri uppgreitt innan 3 ára, með skattalegum ábata uppá u.þ.b. milljón á ári. Hvernig nálgast bankastjórinn ábatann?  Jú hann hirðir hann bara út úr lánsupphæðinni að mestu leyti á lántökudegi og getur farið í fimm stjörnu heimsreisu, eða keypt nýjan bíl fyrir krakkana ef það á við.

Að endingu: Afgreiðslumaður á kassa (250 þús í tekjur) með íbúðarlán með 100 þús króna greiðslubyrði og viðbótarlífeyrissparnað fær 528 (480 + 48) þús króna skattafslátt á ári, skuldlaust heimili með milljón í tekjur fær 672 (480 + 192) þús, en bankastjórinn fær yfir milljón í skattafslátt á ári, ef hann kærir sig um.

Nú er ég ekki að segja að mér finnist eðlilegt að forsendubrestur sé bættur með sömu krónutölu á þá sem skulda mikið og þá sem skulda lítið eða þá sem hafa lágar tekjur og þá sem hafa háar tekjur.  Forsendubrest þarf að leiðrétta í hlutfalli við skaðann sem menn hafa orðið fyrir. Það er samt umhugsunarvert að stjórnmálaflokkur tali fyrir leið þar sem þeir sem orðið hafa fyrir forsendubresti þurfa margra ára skattafslátt til að naga niður forsendubrestinn, meðan aðilar sem ekki hafa orðið fyrir forsendubresti labba burt með milljóna ábata í fyrirframgreiddum skattafslætti á einum degi.

PS. Ég geri mér vel grein fyrir að hlutfallslegur ábati bankastjórans er minni en afgreiðslumannsins.  Afgreiðslumaðurinn fær hjálp með lánið sitt, en bankastjórinn fær þykk seðlabúnt inn um lúguna frá ríkinu.  Ég veit líka að bankastjórinn borgar mikla skatta og þeir hafa hækkað mikið í tíð núverandi stjórnar. En að óbreyttu skattkerfi að öðru leyti, held ég að ofangreint lýsi áhrifum af tillögum Sjálfstæðisflokksins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Framsókn er líka með þetta kosningaloforð.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.4.2013 kl. 22:02

2 Smámynd: Björn Ragnar Björnsson

Nei Ómar Bjarki, loforð Framsóknar er allt annars eðlis. Þar fá menn leiðrétt í hlutfalli við skaða.  Bankastjórar sem ekki hafa orðið fyrir skaða af verðtryggðum lánum fá ekki einseyring með gati hjá Framsókn.

Björn Ragnar Björnsson, 22.4.2013 kl. 22:35

3 identicon

Það má ekki á milli sjá hvort tillögur Sjálfstæðisflokksins eða Framsóknarflokksins eru galnari. Báðar gagnast þær fyrst og fremst þeim betur settu sem þurfa ekki skuldalækkun.

Það er auðvitað algjörlega galið að eyða hundruðum milljarða í slíkt í stað þess að lækka skuldir ríkisins, auka framlag til heilbrigðiskerfisins,  leiðrétta skerðingar öryrkja og elllilífeyrisþega og auka framlög til menntamála.

Greiðslubyrði leigjenda er oft miklu þyngri en íbúðareigenda. Það er því sanngjarnari leið að koma til móts við báða hópa með húsnæðisbótum.

Það er þó rétt að skoða sérstaklega hvort ástæða sé til að lækka lán þeirra sem keyptu sína fyrstu íbúð að mestu á lánum á árunum 2006-2008.

Stefna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er bólu- og hrunstefna. Svona ótrúlegt bruðl með fé ríkisins hlýtur að lokum að leiða til gjaldþrots ríkisins.  

Það er skelfilegt að stórir rótgrónir stjórnmálaflokkar sýni svona ábyrgðarleysi. Hvernig getur nokkur maður treyst slíkum flokkum fyrir stjórn landsins?

Það er til lítils að fá lækkun á eigin lánum ef það kemur margfalt tilbaka í hærri sköttum til að greiða miklu meiri lækkun til hinna best settu.

Ásmundur 22.4.2013 kl. 22:57

4 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Björn Ragnar lítil þekking er hættuleg þekking. Lítil þekking sem notuð er í flokkspólitískum áróðri er sérlega hættuleg. Þessi pistill þinn fær falleinkunn.

Hef unnið við fjármálaráðgjöf í rúm 30 ár. Umfjöllun sem þessi hefur verið skrifuð í flokkspólitískum tilgagni af fólki í öllum flokkum. Það vonda við hana er að hún skaðar umræðuna í stað þess að gera gagn. Það var eins gott að þú varst ekki kosinn í stjórnlagaráð, en ég hef séð greinar eftir aðila sem telur sig alveg sérlega vel til þess fallið áhrifa en er það alls ekki. 

Við skptum oft þekkingu í fjögur stig. 

1. Veit ekki að ég veit ekki. 

2. Veit að ég veit ekki. 

3. Veit að ég veit. 

4. Ómeðvituð vitund. 

Það er með ólíkindum þegar fólk á stigi 1 bíður sig fram í allar mögulegar og ómögulegar stöður. Sjálfum sér og samborgurum sínum til skaprauna. 

Sigurður Þorsteinsson, 22.4.2013 kl. 23:03

5 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Björn, nei. Ja sko, fyrst ætla framsóknarmenn að láta skattborgar borga húsnæðisskuldir vel stæðra eignamanna - og svo bjóða þeir líka þetta nákvæmlega sama og Sjallaflokkur. Eg var að lesa Stóru stefnuskrá þeirra.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.4.2013 kl. 23:11

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Kosningastefnuskrá 2013 stór.

,,VIÐ VILJUM …

... að ska…ttafslá…ttur verði vei…ttur vegna a‰fborgana húsnæðislána og upphæð afslá…arins greiðist beint inn á höfuðstól lánsins. Áƒam verði leitað leiða til að veita fólki jákvæða hvata til að standa í skilum og minnka skuldsetningu heimilanna."

http://www.framsokn.is/wp-content/uploads/2013/03/stefnuskraL.pdf

Það verður bara hægt að loka sjoppunni hérna þegar framsókn og sjallar komast að. Velferðakerfið verður barasta lagt niður. þeir taka mest allan skattstofn ríkisins og veita til auðugra.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.4.2013 kl. 23:17

7 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Edit: ,,... að skattafsláttur verði veittur vegna afborgana húsnæðislána og upphæð afsláttarins greiðist beint inn á höfuðstól lánsins. Áfram verði leitað leiða til að veita fólki jákvæða hvata til að standa í skilum og minnka skuldsetningu heimilanna."

Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.4.2013 kl. 23:18

8 Smámynd: Björn Ragnar Björnsson

Sigurður Þorsteinsson, kærar þakkir fyrir ómálefnalega falleinkunn. Ég hef skoðað það sem Sjálfstæðisflokkurinn boðar í þessum efnum og sé ekkert sem kemur í veg fyrir að skuldlitlir hátekjumenn taki málamynda lán til að stinga boðuðum skattafslætti í vasann.

Björn Ragnar Björnsson, 22.4.2013 kl. 23:56

9 Smámynd: Björn Ragnar Björnsson

Ómar Bjarki, takk fyrir ábendinguna um skattafslátt í stefnu Framsóknarflokksins, vissi ekki af því en breytir engu.  Ég er ekki beinlínis á móti skattafslætti vegna fjármagnskostnaðar húsnæðislána.  Það er vel hægt að hanna slíkt kerfi þannig að það komi td að mestu eða öllu leyti í stað vaxtabóta.  En kerfið sem Sjálfstæðisflokkurinn kynnir er fullhannað miðað við afdráttarlaus kynningargögn og það virkar eins og lýst er í blogginu miðað við kynningarefni xD.

Björn Ragnar Björnsson, 23.4.2013 kl. 00:38

10 Smámynd: Rafn Guðmundsson

það væri gaman ef þarna væru tækifæri fyrir þá sem skulda lítið en ég held að þetta sé einhver misskilningur - örugglega 'smátt letur þarna' hjá þeim.

en varðandi þessi málefnalegu athugasemdir Sigga Þ þá er óþarfi að láta sér bregða. í hans huga er ég bara rugludallur fyrir það eitt að vera ekki sammála honum í esb málum.

http://islandsfengur.blog.is/blog/islandsfengur/entry/1294558/

Rafn Guðmundsson, 23.4.2013 kl. 00:38

11 identicon

Góður pistill, en það sem ég set spurningarmerki við er hvernig ætlar sjálfstæðisflokkurinn að bæta ríkinu upp tekjutap sem það verður fyrir þegar fólk fær allan þennan skattaafslátt ?

Talandi um Framsókn, þá tala þeir um að lagfæra forsendurbrest lánanna. Það fer eðlilega eftir upphæð lánsins hversu mikið það hefur hlaðið uppá sig. Mér finnst óeðlilegt að mynda sér skoðun án þess að hafa í það minnsta kíkt með gagnrýnum augum og af hlutleysi á það sem verið er að tala um.

Sigurbjörg Kristmundsdóttir 25.4.2013 kl. 15:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Björn Ragnar Björnsson
Björn Ragnar Björnsson

Duglegur í byggingarvinnu og glöggur á tölur.  Var framboði til stjórnlagaþings með númer 9838. Hlaut smásjárfylgi en er sáttur. Engum háður. Hafði aldrei verið í stjórnmálaflokki áður en ég gekk til liðs við Pírata. Markmið með framboði var að vinna einungis að hagsmunum þjóðarinnar í nútíð og framtíð. Er einn örfárra einstaklinga sem gert hefur efnislegar athugasemdir til þingnefndar við breytingar á stjórnarskrá í fyrndinni.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband