Leita í fréttum mbl.is

Sjálfstæðisflokkurinn, íbúðalánin og gæfusmíðin.

“Hver er sinnar gæfusmiður. Hafi menn skuldsett sig of mikið bera þeir vitanlega ábyrgð á því.“ Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans 22. sept. 2008.

Ég vil útvíkka þetta aðeins: Hver er sinnar gæfu smiður. Menn ráða því sjálfir hvort þeir afgreiða á kassa eða eru bankastjórar.

Ég er nú frekar hlynntur skattalegri hvatningu ef það styður beint við uppbyggingu hagkerfisins, þ.e. fjárfestingu og atvinnusköpun, t.d. nýsköpun, rannsóknir og þróun.  Ef ég man rétt var Sjálfstæðisflokkurinn allan tíunda áratuga síðustu aldar alveg að fara að koma á skattafslætti vegna rannsókna og þróunar (e: R&D). Eftir að Ísland varð alþjóðleg fjármálamiðstöð, eins og heimsfrægt er orðið, hættu menn alveg að ræða svona skattafslætti.

Nú er Sjálfstæðisflokkurinn aftur kominn af stað með hugmyndir um skattalega hvata, en ekki til atvinnuuppbyggingar í þetta sinn.  Flokkurinn er nú á þeirri skoðun að almenn leiðrétting verðtryggðra (aðallega húsnæðis-) lána sé ekki góð hugmynd.  Í staðinn vill flokkurinn hvetja fólk til að borga inn á húsnæðislánin sín með eigin peningum.  Ríkið gefi svo þeim sem duglegastir eru að borga afslátt af sköttum.

Skoðum þetta aðeins nánar:

Í fyrsta lagi vill flokkurinn að menn geti fengið allt að 40 þúsund króna skattafslátt á mánuði (480 þús á ári) með því einu að greiða íbúðalánin sín.  Séu menn með greiðslubyrði upp á 100 þús á mánuði greiða þeir það, en ríkið bætir um betur og borgar 40 þúsund inn á höfuðstól lánsins.

  1. Þeir sem skulda lítið eða ekkert, labba sig rakleiðis í næsta banka og slá lán uppá 7 milljónir til fimm ára (4% fastir vextir)).  Greiðslubyrði er ca. 100 þúsund á mánuði.  Þeir kaupa sig inn í ríkisbréfasjóð með hluta af láninu. Svo borga menn úr sjóðseigninni 100 þúsund á mánuði en ríkið bætir við 40 þús. Sjóðseignin  plús ríkisframlagið gera talsvert meira en að standa undir láninu.  Semsagt þessir aðilar fá afsláttinn næstum frítt, eða með öðrum orðum ríkið hefur gefið þeim  nærri hálfa milljón króna á ári sem það hefði annars tekið í skatta, án þess að viðkomandi hafi lagt neitt undir. Þessi hópur fær svo til allan afsláttinn 40 þús króna á mánuði beint inn í ráðstöfunartekjur, með því bara að hirða hann að mestu úr lánsupphæðinni strax.
  2. Það er vissulega satt að réttur og sléttur Jón fær sömu ívilnun hafi hann greiðslubyrði upp á 100 þús á mánuði.  Hann fær hinsvegar ekkert fyrir forsendubrestinn, ekkert fyrir tugaprósenta hækkun lánanna umfram ráðstöfunartekjur þrátt fyrir að greitt hafi verið af þeim um árabil. Fólkið í þessum hópi nýtur ekki aukinna ráðstöfunatekna fyrr en skattafslátturinn er búinn að klípa einhvern vænan bita úr höfuðstólnum, en það tekur einhver ár. Þeir sem hafa afhennt kröfuhöfum allar eigur sínar, íbúðin seld nauðungarsölu og / eða orðið gjaldþrota, fá ekkert, alls ekkert, útúr leið Sjálfstæðisflokksins. Sem betur fer getur forsendubrestsfólkið engum um kennt nema sjálfu sér.  Það græðgis og gamblaralið fær bara það sem það á skilið, er það ekki?
Í öðru lagi vill Sjálfstæðisflokkurinn að hver sem er geti borgað allan viðbótarlífeyrissparnað (ekki uppsafnaðann ef ég skil rétt) inn á höfuðstól íbúðalána sinna skattfrjálst.  Þetta er upphæð sem nemur 4% af tekjum viðkomandi.


Þetta er súperdíll fyrir þá sem hafa háar tekjur, því skattafslátturinn er um og yfir 40% (segjum 40% til einföldunar). Taflan hér fyrir neðan sýnir hve mikið menn geta greitt inn á höfuðstól íbúðalána sinna og hve mikið ríkið gefur eftir.

Tekjur á mánuði

Greitt inn á höfustól á mánuði

Skattafsláttur á mánuði

Skattafsláttur á ári

250 þús

10.000

4.000

48.000

500 þús

20.000

8.000

96.000

700 þús

28.000

11.200

134.400

1000 þús

40.000

16.000

192.000

3 milljónir

120.000

48.000

576.000

Þetta nýtist öllum sem geta sett tvö prósent tekna sinna í viðbótarlífeyri, líka þeim sem eru í basli með greiðslubyrði sína fyrir.  Einn bankastjórinn er einhversstaðar nærri síðustu tölunni (3 millj), en Þór Saari sagði eftir fund í okt. 2010 :

"Bankastjórarnir voru bara eins og ég veit ekki hvað í gærkvöldi. Ég held að það hafi verið forstjóri Arion banka [Höskuldur H. Ólafsson] sem fyrstur tók til máls og sagði almenna niðurfærslu skulda vera slæma lausn, það rökstuddi hann með því að segja að hann persónulega þyrfti ekkert á slíkri lausn að halda."

Ætli bankastjórinn myndi slá hendinni móti tilboði Sjálfstæðiflokksins? Varla, hann myndi labba í næsta banka og skrifa sjálfum sér til handa feitan skattafslátt með því einu að slá íbúðalán, afslátt sem væri meira en tífalt hærri í krónum en láglaunamanneskja á kost á. Kannski meinti bankastjórinn að hann þyrfti ekki niðurfærslu, því skattafsláttur hentaði honum betur.

Þetta er semsagt það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill frekar en að forsendubrestur sé leiðréttur.  Heimili með tekjur uppá milljón á mánuði og litlar skuldir í húsnæði getur án teljandi fyrirhafnar og án áhættu fengið 672 þúsund króna skattafslátt á ári bara með því að labba í bankann og slá lán sem greiðir sig nokkurn veginn sjálft.  Mér sýnist að besta leið bankastjórans sé að slá 7 milljón króna lán eins og áður var getið en lánið hjá bankastjóranum væri uppgreitt innan 3 ára, með skattalegum ábata uppá u.þ.b. milljón á ári. Hvernig nálgast bankastjórinn ábatann?  Jú hann hirðir hann bara út úr lánsupphæðinni að mestu leyti á lántökudegi og getur farið í fimm stjörnu heimsreisu, eða keypt nýjan bíl fyrir krakkana ef það á við.

Að endingu: Afgreiðslumaður á kassa (250 þús í tekjur) með íbúðarlán með 100 þús króna greiðslubyrði og viðbótarlífeyrissparnað fær 528 (480 + 48) þús króna skattafslátt á ári, skuldlaust heimili með milljón í tekjur fær 672 (480 + 192) þús, en bankastjórinn fær yfir milljón í skattafslátt á ári, ef hann kærir sig um.

Nú er ég ekki að segja að mér finnist eðlilegt að forsendubrestur sé bættur með sömu krónutölu á þá sem skulda mikið og þá sem skulda lítið eða þá sem hafa lágar tekjur og þá sem hafa háar tekjur.  Forsendubrest þarf að leiðrétta í hlutfalli við skaðann sem menn hafa orðið fyrir. Það er samt umhugsunarvert að stjórnmálaflokkur tali fyrir leið þar sem þeir sem orðið hafa fyrir forsendubresti þurfa margra ára skattafslátt til að naga niður forsendubrestinn, meðan aðilar sem ekki hafa orðið fyrir forsendubresti labba burt með milljóna ábata í fyrirframgreiddum skattafslætti á einum degi.

PS. Ég geri mér vel grein fyrir að hlutfallslegur ábati bankastjórans er minni en afgreiðslumannsins.  Afgreiðslumaðurinn fær hjálp með lánið sitt, en bankastjórinn fær þykk seðlabúnt inn um lúguna frá ríkinu.  Ég veit líka að bankastjórinn borgar mikla skatta og þeir hafa hækkað mikið í tíð núverandi stjórnar. En að óbreyttu skattkerfi að öðru leyti, held ég að ofangreint lýsi áhrifum af tillögum Sjálfstæðisflokksins.


Fjárkúgun og handrukkun ríkisstjórna Norðurlandanna gagnvart Íslandi.

Réttlætið náði fram að ganga í máli Eftirlitsstofnunnar EFTA ofl gegn Íslandi vegna innistæðutrygginga, "Icesave" málinu, með fullum sigri Íslands.

Nauðsynlegt er að einhverjir mátulega stífir fjölmiðlamenn láti forsvarsmenn ríkistjórna Norðurlandanna fjögurra skýra til hlítar hvers vegna löndin tóku að sér ömurlega og lágkúrulega fjárkúgun og handrukkun í Icesave málinu fyrir bullurnar í Bretlandi og Hollandi.

Eftir að Ísland hafði samið við AGS átti að koma Íslandi í sjálfheldu með því að lán Norðurlandanna til Íslands, sem voru hluti af efnahagsáætluninni voru skilyrt því að Ísland hefði samið við Breta og Hollendinga um Icesave.  AGS sem lét eins Icesave málið væri sér óviðkomandi "gat" því ekki lokið endurskoðun áætlunarinnar, vegna vöntunar á virkum lánsloforðum frá Norðurlöndum.  Catch-22.

Það hefur, að ég hygg, ekki komið frambærileg skýring á því hvernig svokallaðar "frændþjóðir" okkar gátu lagst svo lágt.


BRB gegn Íslandi? Mannréttindasáttmáli Evrópu.

Um langa hríð hef ég velt fyrir mér aðgerðum og aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda í aðdraganda bankahrunsins, í hruninu sjálfu og allan þann tíma sem frá því er liðinn.

Eitt af því sem ég tel næsta öruggt er að einmitt aðgerðir ýmsar og aðgerðaleysi stjórnvalda feli í sér brot á mannréttindasáttmála Evrópu.

Brotin sem ég þykist vita af varða aðallega tvær greinar (báðar greinarnar eru lög á Íslandi):

14. grein: Réttindi þau og frelsi, sem lýst er í samningi þessum, skulu tryggð án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, litarháttar, tungu, trúarbragða, stjórnmála- eða annarra skoðana, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu, tengsla við þjóðernisminnihluta, eigna, uppruna eða annarrar stöðu.

og

1. gr. samningsviðauka nr. 1: Friðhelgi eignarréttar
Öllum mönnum og lögaðilum ber réttur til að njóta eigna sinna í friði. Skal engan svipta eign sinni, nema hagur almennings bjóði og gætt sé ákvæða í lögum og almennra meginreglna þjóðaréttar.
Eigi skulu þó ákvæði undanfarandi málsgreinar á nokkurn hátt rýra réttindi ríkis til þess að fullnægja þeim lögum sem það telur nauðsynleg til þess að geta haft hönd í bagga um notkun eigna í samræmi við hag almennings eða til þess að tryggja greiðslu skatta eða annarra opinberra gjalda eða viðurlaga.

Við skulum hafa í huga að það stjórnvöld gætu verið brotleg með aðgerðaleysi einu saman, en það er nú aldeilis ekki eins og stjórnvöld hafi verið aðgerðalaus. Stjórnvöld hafa einmitt allan ofangreindan tíma staðið fyrir aðgerðum sem mismuna fólki gróflega, sérstaklega eftir efnahag.

Til að mynda tel ég einboðið að eignaupptaka á grundvelli verðtryggðra samninga í aðdraganda og sérstaklega í kjölfar bankahrunsins brjóti gegn þessum greinum teknum saman. Það þarf ekki að bíða frekari aðgerða frá yfirvöldum, til að fullyrða að borgurum með verðtryggð lán er að ósekju ætlað að bera mun stærri hluta kostnaðar af bankahruninu en öðrum. Nú er ekki svo að nákvæmlega jafnt, sé hægt að deila út réttlæti í þessum efnum, en réttlæti stjórnvalda að þessu leiti er vel utan við "meðalhóf".

Á næstunni mun ég gera frekari grein fyrir hugleiðingum mínum um þessi efni.

PS. Meðalhóf er sérstaklega "vont" orð í þessu samhengi öllu, því það lýsir mun verr réttaráhrifum en alþjóðlega orðið "proportionate" (hlutfallslegt) sem á betur við í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu.


Fjandinn hafi það, nú er málskot kjósenda ekkert án forseta.

Heyrt hef ég og séð að sumir kjósendur ætli að segja nei við tillögu stjórnlagaráðs m.a. vegna þess að málskotsréttur kjósenda er í tillögunni takmarkaður að hluta.  Sjálfur er ég andvígur þessum takmörkunum.  En fjandinn hafi það, nú getum við ekki sett nokkurn hlut í þjóðaratkvæði nema með atbeina forsetans og aðeins ef við erum nógu snögg til. Eftir að forseti hefur undirritað lög verða þau ekki afturkölluð.  Það reyndi meira að segja á þennan hraða síðast þegar að reynt var að fá Icesave samning samþykktan.  Nái tillaga stjórnlagaráðs fram að ganga, verður málskotsréttur forseta óbreyttur og við, sem þess erum hugar getum reynt að afla stuðnings við afnám takmarkana á beinu málskoti kjósenda og knúið það fram ef málið nýtur lýðræðislegs stuðnings.

Þó allir hafa eitthvað við stjórnarskrártillöguna að athuga, þá er í henni fólgin stórkostleg lýðræðisframför.  Það er meiri lýðræðisleg óvissuför að stöðva framgang tillögu Stjórnlagaráðs en ef hún fær brautargengi.  Nái, þessi tillaga ekki fram að ganga er fullkomin óvissa um hvort nokkurn tíma verði boðið uppá lýðræðisumbætur á Íslandi.  Ef þetta mál er stöðvað, hvenær verður okkur boðið uppá að geta knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslur eða framlagningu mála á þingi?  Strax eftir áramót?  Strax eftir áramótin 2023? Strax eftir áramótin 2073?  Eða kannski aldrei?


Að viðlagðri formælingu Afa og Ömmu! NOT.

Ég fæ á tilfinninguna að sumir samborgarar mínir séu svo dolfallnir yfir mikilli kjörsókn árið 1944, að ekki megi breyta svokölluðum samfélagssáttmála okkar.  Amk hafa sumir talað á þessum nótum.  Líkt og ætla mætti að Afar mínir og Ömmur hafi gengið á kjörfund fyrir nær því 70 árum með tvennt í huga:

Í fyrsta lagi: Frábær og fullkomin er hún stjórnarskráin alíslenska sem okkar bestu menn hafa saman soðið.

Í annan stað: Engin afkomenda vorra má svo mikið sem dirfast að láta sig dreyma um að breyta þessu frábæra plaggi í neinum atriðum sem máli skipta að viðlagðri formælingu okkar.

Halló er einhver heima? Auðvitað var þetta ekki svona, amk ekki með mína Afa og Ömmur.

Ég er sko ekki að fara á kjósa 20. október formælandi afkomendum mínum ef þeir voga sér að snerta hið nýja sköpunarverk stjórnlagaráðsins.  Þegar þar að kemur eftir okkar dag (eða bara fyrr en það B-), ætla ég rétt að vona að þau geri þær breytingar á "grundvallarskipan" samfélagsins sem þörf kann að vera á til að tryggja að borgararnir fái í sem mestum mæli notið frelsis, réttlætis og kærleika.


Fimm af Sex ákvæðið í 113gr. er dautt.

Mér sýnist ákveðin hluti 113. greinar stjórnarskrártillögu Stjórnlagaráðs sé mjög mörgum (þingmönnum þar á meðal) þyrnir í auga.  Jú, Þetta er ákvæðið um minniháttar stjórnarskrárbreytingar:

"Hafi 5/6 hlutar þingmanna samþykkt frumvarpið getur Alþingi þó ákveðið að fella þjóðaratkvæðagreiðsluna niður og öðlast þá frumvarpið gildi engu að síður."

Ég hef eiginlega ekki heyrt nokkurn mann verja þetta ákvæði.  Stjórnlagaráðsfulltrúum er t.a.m. ekki sárt um þetta ákvæði.   M.a. sagði Valgerður Bjarnadóttir í ræðu á Alþingi 18. okt. 2012:

 "á fundi sínum 8 til 11. mars [2012] samþykkti Stjórnlagaráðið að falla frá þessu ákvæði."

Ég held því að það sé óhætt að segja að þetta ákvæði sé í raun dautt.  Ef menn byggja andstöðu sína við tillögu Stjórnlagaráðs á þessu atriði, þá geta þeir sem best látið af þeirri andstöðu nú þegar.

Eigum við ekki að samþykkja að frumvarp Stjórnlagaráðs sé framför umfram núverandi stjórnarskrá og sameinast um að fella fimm-sjöttu málsgreinina brott úr endanlegu frumvarpi.  Stjórnlagaráði hefur kannski þótt þetta minniháttar ákvæði en ekki áttað sig á að hve margir (td þingmenn) eru því ósammála.  Því ætti að vera minniháttar mál að losna við þetta ákvæði, þannig að allar stjórnarskrárbreytingar fari fortakslaust í þjóðaratkvæði.


Blóðrautt sólarlag í Svíþjóð 1977 og 2012.

Sumarið 1977 dvaldi ég í Svíaríki.  Þeir voru kræfir í skattheimtu og ég held að þeir skuldi mér enn endurgreiðslu skatta frá þeim tíma.  Þá um sumarið var kvöld eitt sýnd íslensk sjónvarpsmynd í sænska ríkissjónvarpinu.  Daginn eftir var dómur um myndina í einhverju sænsku dagblaðana og fyrirsögnin var þessi (ef ég man rétt):  Enn einu sinni fá Íslendingar að eyðileggja kvöldið fyrir Svíum.  Ég held að myndin sem eyðilagði kvöldið í Svíþjóð hafi verið "Blóðrautt sólarlag".

Þetta er nú það sem mér kom í hug eftir að Íslendingar eyðilögðu kvöldið fyrir Svíum enn á ný réttum 35 árum eftir að hin fleygu orð birtust á prenti.  Þeir geta sem best endurprentað þau í fyrramálið.  Áfram Ísland.

 

PS. ef einhver les þetta löngu eftir ritun, þá er það sigur Íslands á Svíþjóð í riðlakeppni Ólympíuleikanna í London 2012 sem eyðileggur kvöldið fyrir Svíum.


Thick as a Brick 2. Sex - núll.

6 - 0.

Í kvöld var ég í annað sinn að njóta tónlistar í Hörpu.  Samt var ég í fyrsta sinn að leggja við hlustir í Eldborg.

Hljómburðurinn á þriðju svölum var aldeilis frábær.  1 - 0.

Ég ætlaði mér ekki upphaflega að fara á tónleika Ians Anderson.  Enda var ekki á lofti að ný tónlist yrði í boði, þegar miðar á tónleikana fóru í sölu.  Svo heyrði ég nýlega, fyrir tilviljun, útvarpsþátt sem svipti hulinni af nýju plötunni "Thick as a Brick 2".  Vægast sagt áheyrileg tónlist.  2 - 0.

Ég var spenntastur fyrir nýja efninu, en fyrri partur tónleikana, var aldeilis frábær.   Á tónleikum Jethro Tull í Háskólabíói fyrir tveimur árum  voru það viss vonbrigði að eitt aðal "hljóðfæri" hljómsveitarinar, nefnilega rödd Ians Anderson hafði ekki jafnað sig að fullu eftir að hann "missti röddina".  Í kvöld voru það að sönnu einnig vonbrigði að enn er þetta hljóðfæri ekki í fullkomnu standi þó það hljómi vel á ný plötunni.  Mér þykir líklegt að Ian Anderson nái aldrei þeirri söngrödd sem hann eitt sinn hafði.  Ég er meira en til í að fyrirgefa það í þetta sinn, því þrátt fyrir allt er sjarminn enn til staðar.  Að auki var söngvari með rödd ekki all ósvipaða Ians, til að taka suma hærri tónana. Spilið var þéttara en síðast með Ian & co, etv vegna þess hve afmarkað og nýlegt prógramm kvöldsins er (var). 3 - 0.

Eftir hlé var uþb linnulaus flutningur nýju plötunnar. Leiðistef plötunnar minnir mig á "War of the Worlds" en er mýkra.  Hljóðfæraleikararnir algerlega lýtalausir í túlkun og tækni, vil helst ekki gera upp á milli þeirra.  Ian sjálfur hefur varla nokkurn tíma verið betri á flautunni, sannkölluð veisla. 4 - 0.

Því miður get ég sagt frá tónleikum með frægðarliði þar sem upplifunin var vonbrigðin ein.  Það var ekki í kvöld. Bravó.  5 - 0.

Semsagt, þó ekki hafi tekist að klappa sveitina upp (sem er eftirá að hyggja er skiljanlegt útfrá rammanum um tónleikana, nefnilega "Thick as a Brick" og ekki annað), var heildarútkoman: Frábært. 6 - 0.


Rútstún í höfuðborg Íslands.

Menningarvitar gráta hver um annan þveran vegna þess að ekki var kvöldskemmtun í Reykjavík þann 17. júní 2012.   Gátu þeir ekki bara drifið sig á Rútstún, en þar var, sem oft fyrr, mikið húllum hæ í höfuðborg Íslands.


mbl.is Gagnrýndi hátíðarhöldin 17. júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fiskveiðistjórnun og framtíð sjávarútvegs, ráðstefna 9. maí 2012.

Eitthvað hefur kynning á ráðstefnu með þessu heiti verið dauf. Ég ætla því að leggja mína örvikt á vogarskálina, enda skammur tími til stefnu.

"Tímarit um viðskipti og efnahagsmál stendur fyrir ráðstefnu um áhrif fiskveiðistjórnunar á sjávarútveg og tengdar greinar. 

Lagaleg umgjörð fiskveiða við Ísland, einkum fiskveiðistjórnunarkerfið, er í deiglunni. Á ráðstefnunni verður fjallað um fiskveiðistjórnun á breiðum grunni og áhrif hennar á framtíð sjávarútvegs, með áherslu á áður ókönnuð áhrif á tengda atvinnustarfsemi og samfélagið í viðara samhengi."
 
Hvenær: Miðvikudaginn 9. maí, kl. 8:30-16:30 
Hvar: Háskóli Íslands, Askja, N-132
 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Björn Ragnar Björnsson
Björn Ragnar Björnsson

Duglegur í byggingarvinnu og glöggur á tölur.  Var framboði til stjórnlagaþings með númer 9838. Hlaut smásjárfylgi en er sáttur. Engum háður. Hafði aldrei verið í stjórnmálaflokki áður en ég gekk til liðs við Pírata. Markmið með framboði var að vinna einungis að hagsmunum þjóðarinnar í nútíð og framtíð. Er einn örfárra einstaklinga sem gert hefur efnislegar athugasemdir til þingnefndar við breytingar á stjórnarskrá í fyrndinni.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband