Leita í fréttum mbl.is

Spurningaleikur DV er gagnslaus.

Dv.is hefur komið sér upp all umfangsmiklum vef um Stjórnlagaþingskosninguna.

Þar býður DV m.a. upp á spurningapróf sem netnotendur (kjósendur) geta tekið til að finna þá frambjóðendur sem þeir deila skoðunum með.  Góð hugmynd?  Já á yfirborðinu, en staðreyndin er að þetta próf sem frambjóðendur og kjósendur geta tekið er nærri því verra en ekkert. Spurningapróf DV spyrðir saman frambjóðendur og kjósendur sem eru á öndverðum meiði í sínum hjartans málum (þ.e. með fullkomlega óásættanleg sjónarmið), ef þeir eru sammála um aukaatriði.

DV hefur klárlega gengið fram með með þessa hugmynd meira af kappi en forsjá. Í sundurlausum smáatriða spurningalista DV týnist sú staðreynd að stjórnarskráin er "kerfi", samhangi plagg. T.a.m. get ég skrifað uppá bæði meira og minna vald forseta, allt eftir því hvernig lýðræðislegt vald þjóðarinnar spilar á móti valdi þings og ríkisstjórnar. Þarmeð talið hvernig þing og ríkisstjórn verða til og mörk þeirra á milli.

Það er með öðrum orðum útilokað að svara flestum spurningum DV án skírskotunar til samhengis. Þannig verður niðurstaðan úr prófinu tilviljunarkennt á skjön við megináherslur frambjóðenda og kjósenda.

T.d. er útilokað fyrir mig að koma á því á framfæri að ég telji lýðræðisumbætur ganga öllum öðrum málum framar þegar kemur að nýrri stjórnarskrá. Ég get verið sáttur við ýmsar útfærslur á því, sem geta eins og áður er sagt haft í för með sér aukið vald forseta í einni útfærslu, eða embætti forseta lagt niður í annari. M.ö.o. mér er sama um forseta embættið ef almenningur nær því valdi sem á uppruna sinn hjá almenningi og með réttu er almennings.

Ef núverandi kerfi (kosninga, þings, stjórnar) á að standa þá vil ég auka völd forseta, í þá veru að vísa málum til þjóðarinnar.

Þó þjóðin nái ákvörðunarvaldi úr höndum þingsins þegar nægilega er eftir kallað, er mín vegna skaðlaust að málskotsréttur forseta standi.

Sumsé: Þjóðin ráði.

Í öðru sæti er nægileg skilgreining á þjóðareign, og ákvæði um þjóðareign auðlinda.

Margt annað má gjarna breytast en það er ekki bráðamál eins og hinn fyrrnefndu.

Fyrir aðra frambjóðendur og kjósendur er staða kirkjunnar (þ.e. þjóðkirkjunnar) ef til vill aðalmálið.

Ég hef skoðun á því: Aðskilnaður ríkis og kirkju er sjálfsagt mál en ekki lífsnauðsynlegt. Snyrtimennska svo að segja og felur frá minni hendi hvorki í sér velþóknun né andúð á kirkjunni. Ég er ekki tilbúinn í blóðug átök til að skilja að ríki og þjóðkirkju. Mín vegna má gera það og ég styð aðskilnað. Mér dettur ekki til hugar að aðskilnaður verði óhollur fyrir kirkjuna eða söfnuðina.  Ég hallast frekar að því að aðskilnaður yrði kirkju og söfnuðum til góðs. En það þolir bið.

Lýðræðisumbætur og stöðvun auðlindaframsals (auðlindagjafa) þola hinsvegar enga bið.

Á mínum kjörseðli verða eingöngu frambjóðendur sem styðja víðtækar lýðræðisumbætur og þjóðareign auðlinda. Þó ég hafi sterkar skoðanir á öðrum köflum stjórnarskrárinnar eru þessi tvö atriði beinlínis neyðartilvik.

Svo ég endurtaki aðalpunktinn með þessum skrifum:

Próf DV spyrðir saman frambjóðendur og kjósendur sem eru á öndverðum meiði í sínum hjartans málum, ef þeir eru sammála um aukaatriði.

Ekki nóg með það heldur skilur það milli frambjóðenda og kjósenda sem er sammála um fá aðalatriði en ósammála um mörg smáatriði.

Þessa vankanta væri hægt að laga a.m.k. að einhverju leiti.  Úr því DV er að þessu skora ég á þá að gera það.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Björn Ragnar Björnsson
Björn Ragnar Björnsson

Duglegur í byggingarvinnu og glöggur á tölur.  Var framboði til stjórnlagaþings með númer 9838. Hlaut smásjárfylgi en er sáttur. Engum háður. Hafði aldrei verið í stjórnmálaflokki áður en ég gekk til liðs við Pírata. Markmið með framboði var að vinna einungis að hagsmunum þjóðarinnar í nútíð og framtíð. Er einn örfárra einstaklinga sem gert hefur efnislegar athugasemdir til þingnefndar við breytingar á stjórnarskrá í fyrndinni.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband