Leita í fréttum mbl.is

Aðalsteinn Leifsson segir ósatt í sjónvarpi!

Ég var fyrir einhverjum mínútum að hlusta á Aðalstein Leifsson fullyrða í sjónvarpsþætti að lánshæfismatsfyrirtæki hafi gefið út að lánshæfismat Íslands verði lækkað næstkomandi mánudag ef við segjum Nei á laugardag.  Hvar er þessi yfirlýsing Aðalsteinn?  Þetta eru einfaldlega ósannindi hjá Aðalsteini.  Það er ekkert loforð frá einu eða neinu lánshæfismatsfyrirtæki um hvert lánshæfismatið verði á mánudag, burtséð frá niðurstöðu kosninganna.  Þá veit engin hvert lánshæfismatið verður eftir mánuð, eitt ár, tvö eða tíu.


Darling er dýrlingur.

Ég hef horft á viðtal Sigrúnar Davíðsdóttur við Alistair Darling.  Darling er svo góður maður að ég kemst við.

Darling hefur klárlega aldrei sagt ósatt um nokkurn hlut á ævinni, hann er næstum dýrlingur ekki síður en Darling.  Það eina sem hann hefur þörf fyrir er að menn komi hreint fram og þá leysir hann málið.

Líklega yrði ég líka hrærður ef rætt væri við annað góðmenni, nefnilega Hank Paulson fyrrum fjármálaráðherra Bandaríkjanna.  Sá góði maður þekkir, eins og við erum nú að upplifa, að hvergi hefur nokkurn tíma örlað á tvöfeldni í heiðursmanninum Alistair Darling.

Dæmi: Ef ekki hefðu komið til hreinskilin samskipti fyrrgreindra fjármálaráðherra (Paulson´s og Darling), má telja fullvíst að Lehmann Brothers bankinn hefði fallið 15. september 2008. Því forðuðu þessir ráðagóðu mannvinir með trausti og heilindum.

Ef aðeins við hefðum haft jafn vandaðan mannskap hér heima.

NOT!

Arðgreiðsla úr þrotabúi Landsbankans

Í gær heltust yfir okkur fréttir af góðu gengi Iceland Foods keðjunnar í Bretlandi og hve mikið hún ætlaði að greiða í arð.  Arðurinn átti samkvæmt fréttunum að stærstum hluta að renna til skilanefnda Landbanks og Glitnis.  Þessi tíðindi voru sögð vera úr Liverpool Daily Post.  Þau var flutt af fjölmiðlum og af Birni Val Gíslasyni, eins og um venjulagan arð (til hluthafa vegna hagnaðar af reglulegri starfsemi) væri að ræða.  Fréttin var og borinn undir Pál Benediktsson upplýsingafulltrúa skilanefndar Landsbankans. Við fyrstu sýn mætti ætla að Páll staðfesti aðgreiðslufréttina, en í raun var hann háll sem áll og staðfesti ekki neitt. Í framhaldinu gaf Páll til kynna að auknar endurheimtur í þrotabú bankans væru af hinu góða (hvort það tengist Iceland Foods er óráðið). Undir þetta tek ég heilshugar. Vil þó endilega heyra meira um auknar endurheimtur, í smáatriðum, en ekki bara að þær sé góðar.

Skoðum aðeins frétt  Liverpool Daily Post. Mín þýðing myndi vera á þessa leið (ekki er alveg öruggt að ég sé eins klár í  ensku og fréttamenn vísis og rúv):

Matvörukeðjan Iceland Foods ætlar að losa GBP 330 milljónir af eigin fé til að greiða út til eigenda.


Ekkert um arðgreiðslu. Ég er ekkert sérstaklega að draga í efa að góð rök séu fyrir þessum "eiginfjárdrætti" eigenda Iceland Foods, en hinsvegar er rangt að flytja fréttir af þessu eins búast megi við öðru eins á hverju ári.  2010 var langbesta ár IcelandFoods frá upphafi.  Hagnaður ársins var á bilinu 100 - 150 milljón GBP (finn ekki áreiðanlegar upplýsingar enda um einkafyrirtæki að ræða, kannski Páll viti það).  Eðlilegur arður er einhversstaðar þar fyrir neðan.

Í hádegisfréttum RÚV í dag var svo sagt að arðgreiðsla Iceland Foods verði um GBP 100 milljónir, sem þýðir að arður til skilanefnda á Íslandi verður í kringum 15 milljarðar króna en ekki kringum 50  milljarðar eins og skilja mátti af fyrri fréttum.  Haft er eftir Malcolm Walker forstjóra Iceland Foods að ólíklegt sé að Iceland Foods geti aukið hagnað sinn með sama hraða og undanfarið. Einnig var eftir honum haft að frétt Liverpool Daily Post sé fjarri því að vera nákvæm.

Ég er ekki viss um að fréttir vísis og rúv hafi verið bornar undir Walker.  Kannski þær hafi verið nákvæmari.


Hæstiréttur - Fátt er svo með öllu illt

Ógilding hæstaréttar á stjórnlagaþingskosningunni hefur farið fyrir brjóstið á mér eins og mörgum öðrum.  Í dag sé ég hinsvegar nokkurn ábata af ákvörðun hæstaréttar. Tíminn sem liðið hefur og það sem á daga þjóðarinnar hefur drifið hefur gefið mörgum frambjóðendum til stjórnlagaþings tækifæri til að kynna sig frekar fyrir kjósendum.  Margir þeirra hafa nýtt atburði síðustu vikna, og sérílagi síðustu daga, til að sýna kjósendum að sú lýðræðisást sem þeir játuðu í framboðskynningu er í rauninni ekki til staðar.  Þeir afsaka sig margir, en það er satt best að segja þunnur þrettándi, að fullu og öllu gegnsær.

Það góða við þetta er að raunverulegir lýðræðisunnendur geta látið þessa frambjóðendur afskiptalausa þegar kosningar verða endurteknar.


Kosningar til Stjórnlagaþings verði endurteknar. Sömu frambjóðendur.

Þó margir (ég þar á meðal) telji að 25-menningarnir hafi nægilegt umboð til setu á Stjórnlagaþingi, óttast ég að aldrei verði sátt um þann ráðahag.

Enn síður verður sátt um að Stjórnlagaþingið verði slegið af og t.d. Bjarni Benediktsson (eins og hann sjálfur bauð fram) fari að semja nýtt stjórnarskrárfrumvarp.

Nei, það sem er ógilt er kosningin.  Því er ekki annað að gera en endurtaka hana.  Það þýðir þá líka að ekki er eðlilegt að opnað verði fyrir ný framboð. Frambjóðendur verða þeir sömu. Ekki verður gefin út nýr kynningarbæklingur, heldur verði hann endurprentaður ef þörf krefur.

Ég tel að niðurstaðan verði þessi:  Nýr kjördagur eftir 5-12 vikur. Stjórnlagaþingi frestað fram á haust.  Nýir frambjóðendur komi ekki til greina.

I will make it legal!

Ég hallast að Darth Sidious lausninni á stjórnlagaþingsmálinu.

Alþingi breyti lögum um stjórnlagaþing þannig að Alþingi skipi fulltrúana og skipi um leið þá einstaklinga sem fengu kjörbréf í hendur, eftir hinar nú ógiltu kosningar.


Er fylgi Þorvaldar nú minna en Davíðs á hátindi?

Vefurinn amx.is er ekki að gera sér rellu útaf muninum á eplum og appelsínum.  Þar eru mörg innlegg þar sem gert er lítið úr fylgi kjörinna fulltrúa á stjórnlagaþing.  Langmest fylgi hlaut eins og öllum er kunnugt Þorvaldur Gylfason.  Rétt er einnig að rúmlega þrjú prósent kosningabærra manna settu hann í fyrsta sæti.  Gleymum ekki að uþb 8,7% allra sem greiddu atkvæði settu Þorvald í fyrsta sæti.  Við vitum ekki, og verðum etv ekki upplýst um, hversu margir voru með Þorvald Gylfason einhversstaðar á kjörseðli sínum.  Ég yrði hissa ef nafn hans var ekki einhversstaðar á meira en helmingi kjörseðla (ég mynd veðja á 65-70%).  Væri ekki rétt að amx.is reyndi að reikna úr listakosningakerfi yfir persónukosningakerfi með jafn einföldum trixum.  Fengju þá fulltrúar 30% lista í 12 þingmanna kjördæmi 360% fylgi? flott ef satt væri. Nei staðreyndin er að meðan Þorvaldur Gylfason er með tæp 9% greiddra atkvæða þá eru efstu menn í Alþingiskosningu með (lauslega áætlað) c.a. 1.5-2% greiddra atkvæða að baki.  Ef við fækkuðum Alþingismönnum um helming þá þyrfti 3-4% atkvæða að baki hverjum.

Svarið er því ótvírætt ef leggja á kosningakerfin að jöfnu (sem er ekki hægt að gera athugunarlaust), þá er fylgi Þorvaldar meira en dæmi eru um í kosningum til Alþingis og líklega myndi þetta gilda þó Alþingismönnum væri fækkað um helming (niður í fjölda stjórnlagaþingsmanna).

Svo er auðvitað hægt að gagnrýna þetta innlegg því hér eru líka epli og appelsínur.

Samt stendur það eftir að fylgi Þorvaldar er líklega einstakt.

 

PS. Mér sýnist að  72734,81672 atkvæði hafi nýst af 82.335 gildum atkvæðum, þannig að Þorvaldur var með ríflega 10% nýttra atkvæða í fyrsta sæti.

 


Þjóðin og auðlindirnar

Þegar imprað hefur verið á því gegnum tíðina að þjóðin eigi auðlindir landsins, a.m.k. þær sem ekki eru nú þegar í einkaeigu, hefur ætíð risið upp kór úrtölumanna sem finna hugmyndinni allt til foráttu.  Sumir segja: Þjóðin er ekki lögpersóna og getur því ekki átt nokkurn hlut, þ.a. vilji menn þjóðareign eru þeir að segja ríkiseign. Annað sjónarmið segir gott og vel sendum hlutabréf til allra íslendinga sem er þá staðfesting á eignarhaldi þeirra og þeir geta ráðstafað því að vild í eitt skipti fyrir öll.

Þessar mótbárur eru galnar, þær eru ekki rökfastar.  Þeim er beinlínis ætlað að gera hugmyndina um þjóðareign auðlinda tortryggilega, svo hægt sé að sópa henni út af borðinu.

Í mínum huga er íslenska þjóðin þeir sem búa í landinu á hverjum tíma og bundnir eru landinu (og þjóðinni, já ég veit vísun í hring) auk þeirra sem eiga hér rætur en hafa e.t.v. tímabundna heimilisfesti annars staðar í veröldinni.  Með öðrum orðum þá er þjóðin á morgun ekki endilega nákvæmlega sama fólkið og þjóðin í dag.  Þjóðin að liðnum 50 árum verður alveg örugglega ekki nákvæmlega sama fólkið og í dag.

Skilgreiningu á þjóð og þjóðareign sem tekur mið af ofangreindu tel ég æskilegt að festa í stjórnarskrá. Það þýðir þá að þjóðin í dag hefur ekki sterkara tilkall til auðlinda Íslands en þjóðin á morgun.  Af því leiðir að ef auðlind í eigu þjóðarinnar er endurnýjanleg, líkt og fiskiauðlindin, er þjóðinni í dag ekki heimilt að hirða allan afrakstur auðlindarinnar um ókomin ár eða alla framtíð.

Af skilgreiningu þjóðareignar á þessum nótum leiðir að nýting og fénýting endurnýjanlegrar auðlindar verður að vera gegn sanngjörnu endurgjaldi.  M.ö.o. þeir sem uppi eru í dag geta ekki gefið eða selt á undirverði Pétri og Páli auðlindir sem þjóð framtíðarinnar á með réttu. Sé um langtímaframsal að ræða þarf afraksturinn að nýtast í uppbyggingu sem gagnast framtíðinni ekki síður en nútíðinni, eða kemur til greiðslu í framtíðinni og til ráðstöfunar þá.

Af þjóðareignarskilgreiningu minni leiðir ennfremur að ekki er hægt að framselja varanlega endurnýjanlega auðlind.  Ekki má heldur eyða endurnýjanlegri auðlind, heldur leiðir af skilgreiningu að nýting verður að vera með sjálfbærum hætti sé þess kostur.

Ef um óendurnýjanlega auðlind er að ræða, þarf að bestu manna yfirsýn að ákvarða hvenær slíkar auðlindir eru nýttar og hve hratt.  Í þessu tilfelli þarf að safna í sjóð og nýta í rólegheitum t.d. til innviðauppbyggingar sem nýst getur á löngum tíma.  Ef við ættum olíupeninga gæti verið kominn góður tími til að bora í gegnum eitt og eitt fjall.

Þeir sem sjá ekkert nema tæknilega annmarka á hugsun manna um þjóðareign auðlinda hafa e.t.v. ekkert beitt hugviti í þá átt að leysa úr meintum tæknilegum vanda.

Fyrsta grein laganna um stjórnun fiskveiða hljóðar svo:

Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Ég skil "sameign íslensku þjóðarinnar" á þann veg sem áður er lýst, en ekki á þann veg að ákvæðið sé merkingarlaust eins og lagakrókafræðingar halda fram.  Það er rétt að taka allan vafa af um þetta atriði með því að skilgreina "sameign" eða "eign" "íslensku þjóðarinnar" í nýrri eða breyttri stjórnarskrá.


Spurningaleikur DV er gagnslaus.

Dv.is hefur komið sér upp all umfangsmiklum vef um Stjórnlagaþingskosninguna.

Þar býður DV m.a. upp á spurningapróf sem netnotendur (kjósendur) geta tekið til að finna þá frambjóðendur sem þeir deila skoðunum með.  Góð hugmynd?  Já á yfirborðinu, en staðreyndin er að þetta próf sem frambjóðendur og kjósendur geta tekið er nærri því verra en ekkert. Spurningapróf DV spyrðir saman frambjóðendur og kjósendur sem eru á öndverðum meiði í sínum hjartans málum (þ.e. með fullkomlega óásættanleg sjónarmið), ef þeir eru sammála um aukaatriði.

DV hefur klárlega gengið fram með með þessa hugmynd meira af kappi en forsjá. Í sundurlausum smáatriða spurningalista DV týnist sú staðreynd að stjórnarskráin er "kerfi", samhangi plagg. T.a.m. get ég skrifað uppá bæði meira og minna vald forseta, allt eftir því hvernig lýðræðislegt vald þjóðarinnar spilar á móti valdi þings og ríkisstjórnar. Þarmeð talið hvernig þing og ríkisstjórn verða til og mörk þeirra á milli.

Það er með öðrum orðum útilokað að svara flestum spurningum DV án skírskotunar til samhengis. Þannig verður niðurstaðan úr prófinu tilviljunarkennt á skjön við megináherslur frambjóðenda og kjósenda.

T.d. er útilokað fyrir mig að koma á því á framfæri að ég telji lýðræðisumbætur ganga öllum öðrum málum framar þegar kemur að nýrri stjórnarskrá. Ég get verið sáttur við ýmsar útfærslur á því, sem geta eins og áður er sagt haft í för með sér aukið vald forseta í einni útfærslu, eða embætti forseta lagt niður í annari. M.ö.o. mér er sama um forseta embættið ef almenningur nær því valdi sem á uppruna sinn hjá almenningi og með réttu er almennings.

Ef núverandi kerfi (kosninga, þings, stjórnar) á að standa þá vil ég auka völd forseta, í þá veru að vísa málum til þjóðarinnar.

Þó þjóðin nái ákvörðunarvaldi úr höndum þingsins þegar nægilega er eftir kallað, er mín vegna skaðlaust að málskotsréttur forseta standi.

Sumsé: Þjóðin ráði.

Í öðru sæti er nægileg skilgreining á þjóðareign, og ákvæði um þjóðareign auðlinda.

Margt annað má gjarna breytast en það er ekki bráðamál eins og hinn fyrrnefndu.

Fyrir aðra frambjóðendur og kjósendur er staða kirkjunnar (þ.e. þjóðkirkjunnar) ef til vill aðalmálið.

Ég hef skoðun á því: Aðskilnaður ríkis og kirkju er sjálfsagt mál en ekki lífsnauðsynlegt. Snyrtimennska svo að segja og felur frá minni hendi hvorki í sér velþóknun né andúð á kirkjunni. Ég er ekki tilbúinn í blóðug átök til að skilja að ríki og þjóðkirkju. Mín vegna má gera það og ég styð aðskilnað. Mér dettur ekki til hugar að aðskilnaður verði óhollur fyrir kirkjuna eða söfnuðina.  Ég hallast frekar að því að aðskilnaður yrði kirkju og söfnuðum til góðs. En það þolir bið.

Lýðræðisumbætur og stöðvun auðlindaframsals (auðlindagjafa) þola hinsvegar enga bið.

Á mínum kjörseðli verða eingöngu frambjóðendur sem styðja víðtækar lýðræðisumbætur og þjóðareign auðlinda. Þó ég hafi sterkar skoðanir á öðrum köflum stjórnarskrárinnar eru þessi tvö atriði beinlínis neyðartilvik.

Svo ég endurtaki aðalpunktinn með þessum skrifum:

Próf DV spyrðir saman frambjóðendur og kjósendur sem eru á öndverðum meiði í sínum hjartans málum, ef þeir eru sammála um aukaatriði.

Ekki nóg með það heldur skilur það milli frambjóðenda og kjósenda sem er sammála um fá aðalatriði en ósammála um mörg smáatriði.

Þessa vankanta væri hægt að laga a.m.k. að einhverju leiti.  Úr því DV er að þessu skora ég á þá að gera það.

Sérfræðingaskýrslan - Flöt leiðrétting og vaxtabætur

Ég renndi á hundavaði yfir sérfræðingaskýrsluna um skuldavanda heimilana og vil koma með viðbrögð:

Flöt leiðrétting

Ef útistandandi verðtryggð húsnæðislán eru að meðaltali með 4.5% vöxtum, eiga 25 ár eftir og heildareftirstöðvar eru 1200 milljarðar, þá er eru árlegar afborganir um 80 milljarðar. Flöt leiðrétting uppá 15,5% þýðir árlega eftirgjöf á 12,5 milljörðum.

Ætla má að það myndi þýða varanlega hækkun á einkaneyslustigi um 1%. Nú er það reyndar svo (ef ég man rétt) að um helmingur húsnæðislána er í greiðslujöfnun sem þýðir að ef flöt leiðrétting yrði framkvæmd þá má ætla að einkaneyslustigið hækki um hálft prósent strax til viðbótar við það svigrúm sem greiðslujöfnunin veitir.

Þá fengju lántakar ekki bakreikning vegna greiðslujöfnunarinnar síðar. Að auki má ætla að greiðslujöfnun hafi ekki jafn jákvæð áhrif á einkaneyslu og leiðrétting, því greiðslujafnaðir vita að einkaneyslusvigrúmið sem greiðslujöfnun veitir er ekki varanlegt.

Ég sá ekki í fljótu bragði nein orð um hvað af þessu skilar sér aftur í ríkiskassann. Þá sá ég ekki neina greiningu á hversu mikið þetta fækkar gjaldþrotum, nauðungarsölum o.s.frv.

Jú ég veit það er ekki auðvelt að meta það, ella væri ég búinn að því sem og aðrir. Ég átti satt best að segja von á meiri hagfræði í skýrslunni.

Hækkun vaxtabóta um 2 milljarða á ári.

Hér var talað um mikinn bata hjá þeim sem verst eru settir, en skautað létt yfir að stór hluti af batanum í þessu dæmi átti að koma með því að taka vaxtabætur af mörgum sem njóta þeirra núna. M.ö.o. var þetta enn eitt dæmið þar sem ætlunin er að senda lántökum sérstakan reikning fyrir hrunið. Nú með því að láta þá lántakendur sem enn geta borgað, redda hinum sem geta það ekki. Ég sé ekki betur en að þetta dæmi myndi auka heimtur banka og ÍLS umfram það sem annars mætti búast við. Það er óviðunandi að almenningi og lántökum sé gert að bæta heimtur þeirra án mótframlags.


« Fyrri síða

Höfundur

Björn Ragnar Björnsson
Björn Ragnar Björnsson

Duglegur í byggingarvinnu og glöggur á tölur.  Var framboði til stjórnlagaþings með númer 9838. Hlaut smásjárfylgi en er sáttur. Engum háður. Hafði aldrei verið í stjórnmálaflokki áður en ég gekk til liðs við Pírata. Markmið með framboði var að vinna einungis að hagsmunum þjóðarinnar í nútíð og framtíð. Er einn örfárra einstaklinga sem gert hefur efnislegar athugasemdir til þingnefndar við breytingar á stjórnarskrá í fyrndinni.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband